Skoðun

Hvað með millistéttaraulana?

Eygló Þ. Harðardóttir skrifar
Eina bestu grein síðasta árs átti Karl Sigfússon undir fyrirsögninni Ég er kúgaður millistéttarauli. Í henni lýsir hann reynslu sinni af kúgun lánastofnana og stjórnvalda. Hvernig stjórnvöld hafa verðlaunað þá sem skuldsettu sig í topp á kostnað þeirra sem lögðu fram sparifé sitt við fasteignakaup og stilltu skuldsetningu í hóf. Hvernig þeim hefur verið refsað sem reynt hafa að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar, þrátt fyrir brostnar forsendur. Hvernig ábyrgð og heiðarleiki hafa leitt til þess að viðkomandi situr eftir sem kúgaður millistéttarauli.

Nú segja stjórnvöld að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin í landinu. Þessu hafna framsóknarmenn. Góð stjórnvöld verða að forgangsraða í þágu heimilanna. Mikil tækifæri til almennra leiðréttinga skulda heimilanna glötuðust með yfirfærslu bankanna til kröfuhafa og með því að setja ekki þak á hækkun verðbóta í hruninu. Nýtt ár kemur með ný tækifæri. Tækifæri til að gera betur. Tækifæri til að skoða nýjar hugmyndir og lausnir. Því höfum við framsóknarmenn enn á ný reifað hugmyndir til hjálpar skuldsettum heimilum landsins.

Við viljum nýta skattkerfið til að leysa úr vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja. Það yrði gert með því að afborganir af húsnæðislánum yrðu skattfrjálsar upp að vissu marki, til dæmis sem nemur 1-2 milljónum á ári. Skattaafslátturinn yrði svo nýttur sem viðbótargreiðsla inn á húsnæðislánin. Þannig gætu heimilin greitt töluvert meira inn á lánin sín án aukins kostnaðar fyrir þau. Þessi aðferð gæti komið til móts við þann hóp sem hefur gert sitt besta til að standa í skilum, þrátt fyrir að hafa tapað stórum hluta af eigin fé í fasteignum sínum.

Tekjur ríkissjóðs myndu lækka eitthvað en á móti kæmu lægri vaxtabætur og auknar tekjur Íbúðalánasjóðs.

Við viljum að fulltrúar allra þingflokka og sérfræðingar komi að útfærslu á þessari hugmynd í samvinnuanda og að frumvarp verði lagt fram af ráðherra á vorþingi.

Sýnum á nýju ári að ábyrgð, heiðarleiki og réttlæti er íslenska leiðin. Rétta leiðin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×