Innlent

Hvalafælur hreyfa ekki við síldinni

GS skrifar
Fuglar gæða sér á síld í Kolgrafafirði.
Fuglar gæða sér á síld í Kolgrafafirði. Mynd/ Valli
Síldin í Kolgrafafirði lætur hljóðbylgjur úr öflugum hvalafælum sem vind um eyru þjóta og hreyfir sig ekki þótt þær dynji á henni. Vísindamenn hugleiða nú nýjar aðferðir.

Þetta kom fram við tilraunir starfsmanna Hafrannsóknastofnunar í firðinum í gær og fyrradag, en eins og við höfum greint frá í fréttum, hafa umræddar hvalafælur sýnt árangur við að fæla stóra hnúfubaka frá veiðarfærum fjölveiðiskipanna. Ekki náðist í viðkomandi vísindamenn Hafró í morgun, en samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir nú að kanna möguleika á að prófa tækni, sem meðal annars er notuð við jarðfræðirannsóknir, en allt miðar þetta að því annarsvegar, að geta smalað lifandi síld út úr firðinum og hinsvegar að hindra að hún syndi inn í hann í stórum stíl.

Áfram er unnið með vinnuvélum að því að urða dauða síld í fjörum fjarðarins og er áætlað að búið sé að urða allt að 15 þúsund tonn, og að búið sé að aka um það bil þúsund tonnum af grúti þaðan, til förgunar. Megna ólykt leggur nú frá firðinum, að sögn vegfarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×