Innlent

Hvalaskoðunarmenn styðja ekki þvinganir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hvalur. Mynd/ AFP.
Hvalur. Mynd/ AFP.
Hvalaskoðunarmenn styðja ekki þvinganir eins og þær sem bandarísk stjórnvöld íhuga að beita Íslendinga vegna hvalveiða. Þeir segja þó veiðarnar fæli frá fjölda ferðamanna á hverju ári.

Bandarísk stjórnvöld íhuga að beita Íslendinga refsiaðgerðum vegna hvalveiða. Þau telja íslensk stjórnvöld grafa undan markmiðum alþjóðlegra sáttmála um bann við hvalveiðum. Bandaríkjaforseti mun innan tveggja mánaða ákveða hvort að gripið verið til aðgerða gegn Íslendingum og ef þá hvaða aðgerða.

Hvalaskoðunarfyrirtæki hér á landi hafa lengi haldið því fram að veiðarnar skaði ferðaþjónustuna og vilja að þeim verði hætt. Rannveig Grétarsdóttir er formaður Hvalaskoðunarsamtakanna og framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar. „Við styðjum ekki svona þvinganir en ég skil hvers vegna þeir eru að því. Af því að Íslendingar hafa ekkert tekið neinum sönsum varðandi hvalveiðarnar. En við getum ekki stutt þær og við höfum yfirleitt reynt að tala fólk til um að sniðganga ekki Ísland eða íslenskar afurðir. Heldur styðja eins og ferðaþjónustuna eins og hvalaskoðunina og koma til Íslands,“ segir Rannveig.

Hún segir veiðarnar hafa áhrif á ferðamenn. Við fáum alveg slatta af fyrirspurnum varðandi hvalveiðarnar og bréf um það að fólk ætli ekki að koma og vilji ekki koma hingað meðan við erum að stunda hvalveiðar. Við höfum líka fengið neitun frá ferðaskrifstofum um að hitta okkur erlendis út af hvalveiðunum. Við reynum náttúrulega einnig að tala þær til og benda þeim á að það skipti máli að styðja hvalaskoðunina og ferðaþjónustuna. Hrefnuveiðarnar í Faxaflóanum hafa bein áhrif á hvalaskoðun. Flestir ferðamenn sem fara í hvalaskoðun fara í hvalaskoðun hér frá Reykjavík. Það er verið að veita hrefnurnar rétt hjá bátunum. Það hefur klárlega áhrif á okkur og við finnum fyrir breytingum. Það virðist vera erfitt að koma þeim skilaboðum á framfæri til stjórnvalda að þetta er virkilega að hafa áhrif á okkur og við höfum áhyggjur af rekstrinum og næstu árum ef þetta heldur svona áfram,“ segir Rannveig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×