Innlent

Hvalveiðar halda áfram þrátt fyrir óvissu með flutning á hvalkjöti

Hrund Þórsdóttir skrifar
Undanfarinn sólarhring hafa fjórar langreyðar komið á land í Hvalfirði.
Undanfarinn sólarhring hafa fjórar langreyðar komið á land í Hvalfirði.
Greint var frá því í fréttum fyrir helgina að flutningar á hvalkjöti frá Íslandi til Japan hefðu verið stöðvaðir, en þangað hafa afurðir langreyða sem veiðast við Íslandsstrendur verið fluttar hingað til. Í kjölfarið ákváðu Samskip að hætta að flytja hvalkjöt til Evrópu, vegna banns á flutninga hvalkjöts um hafnir í Hollandi og þar sem erfitt væri að fá önnur skipafélög til að flytja afurðirnar áfram til Asíu. Fréttastofa fékk staðfest í dag að þessi ákvörðun Samskipa stendur og upplýsingafulltrúi Eimskipa segir að ekki hefði verið leitað til þeirra varðandi flutninga á kjötinu. Flutningar á afurðunum virðast því í lausu lofti en veiðarnar halda engu að síður áfram.

Hvalur 8 kom með tvær langreyðar í Hvalstöðina í Hvalfirði í dag og Hvalur 9 kom með aðrar tvær í nótt. Alls hafa verið veidd 50 dýr í sumar. Stöðvarstjóri Hvalstöðvarinnar þvertók í dag fyrir að rætt hefði verið um að fresta eða hætta veiðunum. Kjötið verður flutt til geymslu í Hafnarfirði og sagði hann að nægt geymslurými væri til staðar. Hann vísaði að öðru leyti á Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf. en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í hann í dag.

Hvalirnir voru flensaðir í dag en á meðan ekki er ljóst hvernig afurðirnar verða fluttar úr landi hljóta þær einfaldlega að safnast upp. Í meðfylgjandi frétt er rætt við starfsmenn Hvalstöðvarinnar sem segja engin áform uppi um að hætta veiðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×