Erlent

Hvítabjörn dró kajakræðara út úr tjaldinu

Óli Tynes skrifar
Hvítabjörninn var mikil skepna.
Hvítabjörninn var mikil skepna. Mynd/Sýslumaðurinn á Svalbarða

Ungur norskur kajakræðari þykir hafa sýnt bæði snarræði og kjark þegar hann bjargaði félaga sínum úr kjafti hvítabjarnar.

Sebastian Plur Nilssen (22) og Ludvig Fjeld (22) ætluðu að verða fyrstir manna til þess að róa kajökum sínum umhverfis Svalbarða. Það er um 2000 kílómetra vegalengd.

Þeir lögðu af stað sjötta júlí síðastliðinn og áætluðu að leiðangurinn tæki tvo til þrjá mánuði.

Kom þjótandi með riffilinn

Á miðvikudagskvöldið réru þeir í land eins og venjulega og slógu upp tjaldi. Og vöknuðu við það um nóttina að hvítabjörn réðist þar inn.

Hann greip Sebastian í kjaftinn og dró hann á öxlinni út úr tjaldinu. Hann var kominn með hann eina fjörutíu metra eftir ströndinni þegar Ludvig kom þjótandi með riffil þeirra félaga.

Björninn sleppti Sebastian um leið og fyrsta skotið hitti hann, en Ludvig tók enga áhættu og skaut í hann þrem skotum til viðbótar. Þá var björninn augljóslega steindauður.

Sebastian var með mörg bitsár á efri hluta líkamans og eins á höfði og hnakka. Sárin voru þó ekki lífshættuleg.

Hvítabirnir friðaðir

Ludvig hafði samband við yfirvöld í Longyearbyen sem sendi þyrlu eftir þeim. Sebastian gekkst svo undir aðgerð á sjúkrahúsinu í Longyearbyen.

Hvítabirnir eru friðaðir á Svalbarðal. Sýslumaðurinn þar sagði hinsvegar augljóst að dýrið hafi verið drepið í sjálfsvörn og eftirmáli því enginn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×