Innlent

Hvorki borðað né drukkið í sjö daga

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Afganskur hælisleitandi, sem er nú á sjöunda degi hungurverkfalls, var í morgun fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús. Hvorki Innanríkisráðuneytið né Útlendingastofnun hafa brugðist við fréttum af hungurverkfallinu. 

Ghasem hefur hvorki borðað né drukkið í sjö daga, en á miðvikudag dvaldi hann eina nótt á sjúkrahúsi þar sem hann fékk næringu í æð. Í morgun komu vinir Ghasems að honum meðvitundarlausum, og var hann fluttur á sjúkrahús með hraði þar sem hann fékk blóðvökva. Hann komst til meðvitundar en er of veikburða til að tjá sig.

Fjölskylda Ghasems er látin en hann flúði frá Afganistan sextán ára gamall. Hann kom til Íslands árið 2012 og sótti um pólitískt hæli. Umsókninni var hafnað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem hann hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð.

Hann áfrýjaði til Innanríkisráðuneytisins og bíður enn eftir úrskurði.  

Ghasem var neitað um hæli í Svíþjóð og telur því víst að hann verði sendur aftur til Afganistans hafni íslensk stjórnvöld umsókn hans. Hann segist ekki geta snúið aftur til heimalands síns og segir að þar sé honum hætta búin - hann vilji frekar deyja hér á landi en að snúa aftur til Afganistans.

Hvorki Ghasem sjálfur né Hjörtur Örn Eysteinsson, lögmaður hans, hafa heyrt frá Innanríkisráðueytinu eða Útlendingastofnun síðan hungurverkfallið hófst. Hjörtur sagði í samtali við fréttastofu að afgreiðsla á málinu hafi tekið óvenju langan tíma og að hann hyggðist óska eftir því að með meðferðinni yrði flýtt í ljósi aðstæðna, en Ghasem dvelur enn á Landspítalanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×