Innlent

Í ársfrí eftir einelti af hálfu bæjarstjóra: Ég gat ekki meira

Ólafur Melsteð segir Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra hafa viljað bola sér í burtu eftir að hún tók við starfinu af Jónmundi Guðmarssyni.
Ólafur Melsteð segir Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra hafa viljað bola sér í burtu eftir að hún tók við starfinu af Jónmundi Guðmarssyni.
„Ég gat ekki meira, var farinn að vakna fyrir allar aldir með kvíða, lystarleysi og óþægindi. Þetta er versta lífsreynsla sem ég hef lent í,“ segir Ólafur Melsteð landslagsarkitekt og fyrrverandi framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs Seltjarnarness. Hann hefur samkvæmt læknisráði verið í veikindaleyfi í rúmt ár vegna eineltis bæjarstjórans Ásgerðar Halldórsdóttur. Hann krefst bóta og að bæjarstjórinn víki.

Ólafur segir einelti Ásgerðar hafa byrjað eftir að hún tók við stöðu bæjarstjóra um mitt ár 2009 af Jónmundi Guðmarssyni, sem réð hann í starfið í október 2008. „Hún ætlaði að losna við mig frá upphafi, sumir segja að það hafi verið af því að Jónmundur réð mig,“ segir Ólafur, sem fór í veikindaleyfi í janúar í fyrra. Í september í fyrra var honum tilkynnt að staða hans hefði verið lögð niður og honum sagt upp. Allir framkvæmdastjórar sem sagt var upp hjá bænum á sama tíma voru endurráðnir en ekki hann.

Ólafur reyndi í nokkur skipti að vekja athygli bæjarstjórnar Seltjarnarness á eineltinu og fá hana í tvígang í fyrravor til að greiða hluta af kostnaðinum við að fá óháða matsmenn til að skoða ásakanir um eineltið. Þar kom hann að lokuðum dyrum.

„Lögmaður bæjarins svaraði því oft að ekki væri um neitt einelti að ræða,“ segir Ólafur.

„Það var mat lögmanna okkar á þeim tíma að þetta færi svona eins og það hefur spilast. Við kynntum okkur það líka að ekki væri verið að brjóta á rétti neins. Við dómsniðurstöðu dæmir dómari málskostnað og fleira,“ segir Guðmundur Magnússon, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness. Hann bætir við að málið sé litið alvarlegum augum. Fundað verður um það í vikunni.

„Við fengum niðurstöðuna úr matinu á miðvikudag. Þá voru aðrir fundir. Menn vildu geta kynnt sér þetta betur. Lögmenn vildu fá skýrsluna til að kynna sér innihald hennar betur. Við munum fara yfir þetta mál í vikunni,“ segir Guðmundur.jonab@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×