Íslenski boltinn

Umfjöllun: Fram - Breiðablik 2-1 | Fram í úrslit

Stefán Árni Pálsson á Laugardalsvelli skrifar
Fram vann frábæran sigur á Breiðablik, 2-1, í undan úrslitum Borgunarbikarsins en leikurinn fór fram á Laugardalsvelli. Framarar gerðu tvö mörk í fyrri hálfleik en Blikar aðeins eitt í þeim síðari.

Leikurinn hófst fjörlega fyrir heimamenn en þeir náðu að skora fyrsta mark leiksins eftir tæplega tíu mínútna leik þegar Kristinn Ingi Halldórsson kom boltanum í netið eftir að Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðbliks, hafði verið skot Hólmbert Arons Friðjónssonar út í teiginn.

Blikar hresstust töluvert eftir markið en náðu ekki að setja mark sitt almennilega á leikinn. Framarar voru verulega ákveðnir í fyrri hálfleiknum og þá sérstaklega Almarr Ormarsson sem varnarmenn Breiðabliks réðu ekkert við.

Fimm mínútum fyrir lok hálfleiksins prjónaði Almarr sig í gegnum vörn Blika og Sverrir Ingi braut á honum innan vítateigs. Hólmbert Aron steig á vítapunktinn og skoraði örugglega. Staðan var því 2-0 í hálfleik og Blikar greinilega að glíma við Evrópuþreytu.

Blikar komu sprækir til leiks í upphafi síðari hálfleiksins og Ólafur Kristjánsson, þjálfari liðsins, var greinilega búinn að endurskipuleggja sitt lið. Nichlas Rohde og Andri Rafn Yeoman komu inn á í hálfleiknum og hressti það vel upp á sóknarleik liðsins.

Árni Vilhjálmsson náði að minnka muninn fyrir gestina þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en hann nýtti sér slæm varnarmistök Framara og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Ögmundi í marki Fram.

Blikar voru samt sem áður í miklum vandræðum að koma boltanum framhjá Ögmundi og geta Safamýrapiltar heldur betur þakkað honum fyrir sætið í úrslitaleiknum.

Framarar héldu út til loka og eru því komnir í úrslit Borgunarbikarsins en liðið mætir Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×