Íslenski boltinn

Umfjöllun: Grindavík vann mikilvægan sigur á ÍBV

Stefán Árni Pálsson í Grindavík skrifar
Ólafur Örn Bjarnason og lærisveinar hans í Grindavík unnu mikilvægan sigur gegn ÍBV á heimavelli í dag.
Ólafur Örn Bjarnason og lærisveinar hans í Grindavík unnu mikilvægan sigur gegn ÍBV á heimavelli í dag.
Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Eyjamenn, 2-0, í nokkuð bragðdaufum leik sem fram fór á Grindavíkurvelli. Heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik úr vítaspyrnu, en þar var á ferðinni Jamie McCunnie. Scott Ramsey innsiglaði sigurinn í blálokinn með frábæru marki.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn mjög vel og fengu dauðafæri strax á annarri mínútu þegar Óli Baldur Bjarnason skallaði boltann í áttina að marki Eyjamanna en Albert Sævarsson varði frábærlega. Eyjamenn komust rólega í takt við leikinn og fengu sín færi í fyrri hálfleiknum.

Þegar um hálftími var liðinn af leiknum fékk Albert Sævarsson, markvörður ÍBV, rautt spjald fyrir að brjóta á á Magnúsi Björgvinssyni, sem var sloppinn einn í gegn.

Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu og rak Albert í sturtu.

Jamie McCunnie skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og heimamenn því komnir yfir. Leikurinn róaðist mikið eftir mark Grindvíkingar og staðan var 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri og liðin áttu erfitt með að skapa sér góð færi. Það var aftur á móti ekki að sjá að Eyjamenn væru einum færri, en Grindvíkingar fengu samt nokkrar hættulega skyndisóknir.

Tonny Mawejje, leikmaður Grindvíkinga, var þeirra hættulegasti maður og náði oft á tíðum að prjóna sig í gegnum vörn heimamanna. Eyjamenn náðu samt sem áður ekki að jafna metin eftir að hafa lagt mikið púður í sóknarleikinn.

Grindvíkingar gerðu útum leikinn á 88. mínútu þegar Scott Ramsey skoraði frábært mark, en hann fékk boltann rétt fyrir utan teiginn og tók á rás, þegar hann var komin í ákjósanlegt skotfæri þá lyfti hann boltanum í fjærhornið.

Líklega mikilvægasti sigur Grindvíkinga í sumar sem eru komnir með 11 stig í deildinni. Eyjamenn máttu ekki við því að tapa leiknum í dag ef þeir ætla sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Grindavík 2– 0 ÍBV

1-0 Jamie McCunnie , víti (34.)

2-0 Scott Ramsey (88.)

Skot (á mark): 11 – 6 (5-3)

Varin skot: Óskar 3 – 3 Albert

Horn: 2 – 10

Aukaspyrnur fengnar:10– 10

Rangstöður: 5-2

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×