Handbolti

Ísland lék í heimsklassa í seinni hálfleik og vann Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir fagna í leik á HM.
Strákarnir fagna í leik á HM. Mynd/Valli

Strákarnir okkar sýndu á sér tvær hliðar í kvöld. Eftir að liðið var fimm mörkum undir í hálfleik, 16-11, átti það ótrúlega endurkomu í þeim síðari og vann leikinn með þriggja marka mun, 26-23.

Það var ekki mikið sem gekk upp í fyrri hálfleik. Austurríkismenn tóku frumkvæðið í leiknum með góðum varnarleik og frábærri markvörslu Nikola Marinovic sem reyndist okkur einnig erfiður í leiknum í október í haust þegar Ísland tapaði fyrir Austurríki með fimm marka mun.

Það vantaði mikið upp á í sókn, vörn og markvörslu hjá Íslandi. Guðmundur Guðmundsson lagaði það í hálfleik og dæmið snerist þá algerlega við.

Austurríki komst ekki á blað fyrr en eftir rúmar tíu mínútur og Ísland komst yfir, 17-16. Leikurinn var í járnum í nokkrar mínútur eftir það en eftir að Ísland skoraði fjögurm örk í röð á sjö mínútna kafla var liðið komið með góða forystu.

Henni héldu strákarnir allt til loka og fögnuðu að lokum innilega sigrinum. Það áttu þeir svo sannarlega skilið.

Það sem skilaði fyrst og fremst sigrinum var ótrúlegur varnarleikur íslenska liðsins og frábær markvarsla Björgvins Páls sem varði 65 prósent allra þeirra skota sem á hann komu í seinni hálfleik. Ingimundur, Sverre og Ásgeir Örn voru sérstaklega öflugir og áttu mikinn þátt í sigrinum.

Þórir Ólafsson var drjúgur og nýtti sín skot vel. Svo sýndi Alexander enn og aftur að hann er í allra fremsta flokki. Hann skoraði nokkur stórglæsileg mörk - eins og reyndar fleiri. Þetta var sigur liðsheildarinnar.

Ísland er því með fullt hús stiga í B-riðli eftir fjóra leiki - 8 stig. Ungverjaland og Noregur eru með sex stig en þessi þrjú lið eru nú örugg áfram. Það ræðst á fimmtudaginn, þegar Ísland mætir Noregi, hvort að strákarnir fari með fjögur stig í milliriðilinn, þrjú (með jafntefli) eða tvö (með tapi).

Ísland-Austurríki 26-23 (11-16)

Mörk Íslands: Alexander Petersson 7 (9), Þórir Ólafsson 5/2 (6/2), Arnór Atlason 3 (6), Ólafur Stefánsson 3 (7/1), Snorri Steinn Guðjónsson 3 (8/1), Aron Pálmarsson 2 (4), Guðjón Valur Sigurðsson 2 (4), Róbert Gunnarsson 1 (3).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16 (33/2, 48%), Hreiðar Levy Guðmundsson 0 (6/1).

Hraðaupphlaupsmörk: 9 (Þórir 3, Guðjón Valur 2, Arnór 2, Ólafur, Alexander)

Fiskuð víti: 4 (Sverre jakobsson, Róbert, Kári Kristjánsson, Snorri Steinn)

Brottvísanir: 10 mínútur.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina: Ísland - Austurríki.

Úrslit, staðan og næstu leikir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×