Fótbolti

Lars vill stækka búningsklefana og upphitaðan völl

Kolbeinn Tumi Daðason í Laugardal skrifar
Mynd/Vilhelm
„Ég vil að Laugardalsvöllur verði nútímavæddari,“ sagði Svíinn Lars Lars Lagerbäck á fundi með blaðamönnum í dag.

Tilkynnt var að Lagerbäck yrði áfram þjálfari landsliðsins fram yfir Evrópumótið í Frakklandi árið 2016. Þeir Heimir Hallgrímsson deila ábyrgðinni jafnt en í kjölfarið tekur Heimir við liðinu í undankeppni HM 2018.

Svíinn vill að fjármagn verði sett í að gera Laugardalsvöll betri bæði hvað varðar leikvöllinn og aðbúnað.

„Völlurinn þyrfti að vera upphitaður og búningsherbergin þurfa að geta tekið 23 leikmenn,“ sagði Svíinn sposkur. Vont væri hve þröngt væri á þingi inni í klefunum á Laugardalsvelli. Lars viðurkenndi að hann vissi vel að hlutir sem þessir kostuðu peninga en að sama skapi sköpuðu íþróttir fjármagn.

„Landsliðið gæti þurft að spila aftur landsleiki í nóvember og íslensk félagslið jafnvel í desember,“ sagði Svíinn. Hann bætti við að aðstaða til knattspyrnuiðkunar væri þó heilt á litið til fyrirmyndar á Íslandi.

Blaðamannafundurinn í höfuðstöðvum KSÍ var í beinni textalýsingu á Vísi. Lýsinguna má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×