Erlent

Í það minnsta 91 fallinn í Noregi

Slösuð kona hlýtur aðhlynningu eftir að hafa verið flutt af Útey á nálæga strönd.
Slösuð kona hlýtur aðhlynningu eftir að hafa verið flutt af Útey á nálæga strönd. Vísir/AFP
Norska lögreglan hefur staðfest að a.m.k. 91 hafi fallið í hryðjuverkaárásunum í Noregi í gær. Þar af féllu 84 í skotárásinni í Útey. Sjö fórust í árásinni á stjórnarráðshverfið í Osló. Þetta staðfesti lögreglustjórinn Øystein Mæland á blaðamannafundi um klukkan hálffjögur í nótt. Hann segir þó tölu látinna að öllum líkindum eiga eftir að hækka.

Mæland segir lögregluna ekki hafa tæmandi lista yfir þá sem særðust í árásum dagsins. Margir liggi alvarlega særðir á sjúkrahúsum í Osló. Skrár sjúkrahúsa verði keyrðar saman í dag en þá fyrst verði hægt að staðfesta fjölda þeirra sem féllu í árásunum.

Mæland kvaðst ekki þora að giska á fjölda þeirra sem liggja nú á sjúkrahúsi. Upplýsingar og heimildir væru enn á reiki.

Á vef norska ríkissjónvarpsins segir að enginn vafi leiki á því að 22. júlí verði skráður í sögubækurnar sem einn sorglegasti dagur norsku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×