Innlent

Íbúar yfirgáfu gossvæðið

Nokkrir íbúar Kirkjubæjarklausturs og þar úr grenndinni yfirgáfu svæðið í fylgd björgunarsveitarmanna í gærkvöldi og ætla að dvelja annarsstaðar fyrst um sinn. Vitað er nokkrar kindur og lömb hafa drepist, einkum í Landbroti, suður af eldstöðinni.

Talið er líklegt að skepnurnar hafi blindast vegna ösku og villst ofan í skurði.Þá hefur töluvert af bleikju drepist í fiskeldisstöð Klausturbleikju, en þar er bleikjan alin í opnum kerjum. Mikið öskufok eða öskubylur hefur verið suður af gosinu og víðar á Suðurlandi í nótt, enda hvasst, en erfiðara er að meta sjálft öskufallið.

Gosórói hefur verið nokkuð stöðugur í nótt þannig að endalok gossins virðast ekki vera í kortunum. Gosmökkurinn er líklega í 5 til 7 kílómetra hæð, en fór hæst í 20 kílómetra fyrstu nóttina eftir að gosið hófst.

Samkvæmt upplýsingum samhæfingarstöðvar Almannavarna bárust engar hjálparbeiðnir frá íbúum í nótt, en björgunarsveitarmenn voru kallaðir til aðstoðar í gærkvöldi þegar járnplötur voru að losna af húsi í hvassviðrinu. Þeir munu svo væntanlega aðstoða mjólkurbíla við að komast heim að þeim bæjum, sem mjólk hefur ekki verið sótt til síðustu daga.

Ef það tekst ekki blasir við bændum að fara að hella mjólkinni niður. Hringvegurinn á milli Kríuness og Víkur í Mýrdal er enn lokaður. Varahlutir í Dash eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar komu til landsins með fyrsta flugi í gærkvöldi og hafa flugvirkjar unnið að viðgerð á vélinni í nótt.

Hún hefur ekkert nýst til eftirlitsflugs yfir gosstöðvunum eftir að gosið hófst, en hún er búin fullkomnum tækjum til að mynda í gegnum um öskustrókinn. Vélin kemst væntanlega í gagnið í dag.

Fjöldi björgunarsveitarmanna og lögreglumanna hafa verið til taks á gossvæðinu í nótt og verður staðan endurmetin með morgninum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×