Innlent

Icelandair ætlar að kæra flugdólginn - fær ekki að fljúga aftur með þeim

Icelandair ætlar að kæra íslenska flugdólginn sem ógnaði farþegum og flugfreyjum um borð í vél félagsins sem var á leið til New York á fimmtudag. Maðurinn mun ekki fljúga aftur með Icelandair um óákveðinn tíma.

Saksóknari í New York ákvað að ákæra ekki manninn eftir að enginn farþegi vildi bera vitni gegn honum. Maðurinn var því frjáls ferða sinna eftir að áfengisvíman var runnin af honum.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að flugfélagið muni kæra manninn. „Við erum ekki búin að kæra hann, en það verður gert," segir hann. „Það er gert vegna þess, að þegar farþegar ógna öðrum farþegum og áhöfninni, og þar með öryggi flugsins, þá er réttast að það fari til réttra yfirvalda."

Spurður hvort að það skipti máli í hvaða lofthelgi vélin var stödd þegar atvikið kom upp, segir hann svo ekki vera. „Þetta er íslenskt loftfar og íslenskur ríkisborgari, svo það er eðilegast að hann verði kærður til lögreglunnar hér á landi."

Guðjón segir að málið sé mjög sérstakt. „Þetta gerist ekki oft en það hafa komið upp ámótamál í gegnum tíðina. Þetta er svolítið sérstakt sérstaklega vegna þeirrar myndar sem birtist af honum í öllum fjölmiðlum í heiminum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×