Innlent

Icelandic Water Holdings gefur vatn til Serbíu

Randver Kári Randversson skrifar
Hátt í 400 þúsund manns er án drykkjarvatns í Serbíu vegna flóða sem urðu þar í landi í maí.
Hátt í 400 þúsund manns er án drykkjarvatns í Serbíu vegna flóða sem urðu þar í landi í maí. Mynd/Rauði kross Íslands
Icelandic Water Holdings sendir tvo 40 feta gáma sem innihalda 3.024 kassa eða 72.576 flöskur af 500ml vatni að virði 15 milljónir íslenskra króna til Serbíu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Vatnið verður afhent Rauða krossinum í Serbíu, sem mun sjá um að dreifa vatninu. Þar hefur ríkt mikil neyð síðan náttúruhamfarir áttu sér stað í maí og mikill skortur er á hreinu vatni en hátt í 400 þúsund manns eru án drykkjarhæfs vatns og rafmagns á svæðinu.

„Það er mikilvægt að hjálpa í neyð og við getum aðstoðað með því að veita þúsundum manna ferskt og hreint drykkjarvatn. Það er það minnsta sem við getum gert“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings.

Með þessu styður Icelandic Water Holdings átakið „Hjálpum Serbíu“ á Íslandi sem stofnað var til hjálpar íbúum Serbíu vegna afleiðinga flóðhamfaranna. Þetta eru verstu flóð í manna minnum en talið er að um 30.000 manns hafi misst heimili sín eftir flóðin. Stór landssvæði eru undir vatni og hefst fólk við hjá ættingjum, í neyðarskýlum og bráðabirgðahúsnæði. Ljóst er að það mun taka langan tíma að endurbyggja innviði landsins.

Icelandic Water Holdings, sem flytur út vatn undir merkinu Icelandic Glacial, er selt á 17 mörkuðum víða um heiminn. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og eru Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson stærstu hluthafar Icelandic Water Holdings ásamt bandaríska drykkjavöruframleiðandanum Anheuser Busch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×