Innlent

Íhuga að beita Íslendinga efnahagslegum þvingunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hollensk stjórnvöld íhuga að beita Íslendinga efnahagslegum þvingunum til að knýja fram efndir í Icesave málinu. Þá ætla Hollendingar einnig beita sér fyrir því að sparifjáreigendur þar í landi fái allt sitt til baka - ekki einungis lágmarkstryggingu.

Þetta kemur fram bréfi sem Jan Kees de Jager hollenski fjármálaráðherrann, sendi forseta hollenska þingsins í dag og fréttastofa hefur undir höndum.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave hefur valdið miklum vonbrigðum í Hollandi. Fjármálaráðherra Hollands sagði í ræðu á hollenska þinginu í dag að aðild Íslendinga að Evrópusambandinu sé háð því að lausn finnist á Icesave málinu.

Þá sagði de Jager ennfremur að Hollendingar ætli að beita þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að tryggja að íslendingar greiði til baka Icesave reikninginn.

Endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands tafðist í marga mánuði árið 2009 vegna meðal annars andstöðu Hollendinga innnan stjórnar sjóðsins.

Í bréfi hollenska fjármálaráðherrans kemur fram að Hollendingar íhugi í samstarfi við Breta að beita íslendinga efnahagslegum þvingunum til að knýja fram efndir í málinu. Er vísað í 111. grein EES samningsins í því samhengi sem fjallar meðal annars um hvernig leysa megi ágreining um túlkun samningsins. Aðilar geta gripið til þvingana náist ekki sátt um eina ákveðna túlkun.

Í bréfinu kemur einnig fram að hollensk stjórnvöld ætla að beita sér fyrir því að sparifjáreigendur þar í landi fái allt sitt til baka - ekki einunigs lágmarkstryggingu.

Hollensk stjórnvöld drógu mörkin við eitt hundrað þúsund evrur þegar innistæðutryggingar voru greiddar út við fall landsbankans árið 2008. Tvö hundruð hollenskir sparifjáreigendur, sem áttu meira en hundrað þúsund evrur inni á Icesave töpuðu rúmlega tuttugu og fimm milljónum evra eða sem nemur rúmlega fjórum milljörðum króna. Þessi hópur kærði íslensk stjórnvöld til eftirlitsstofnunar EFTA árið 2009.

Hollenski fjármálaráðherra ætlar að funda með fulltrúum eftirlitstofnunar EFTA síðar í þessari viku vegna þessa máls.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×