Innlent

Íhugar breytingar á vopnalögum í kjölfar árásanna í Noregi

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, íhugar nú breytingar á vopnalögum í kjölfar hryðjuverkanna í Noregi. Hann segir að ekki sé þörf á skipulögðu eftirliti með skrifum á internetinu.

Innanríkisráðherra fundaði með ríkislögreglustjóra í gær ásamt öðrum ráðherrum um hryðjuverkin í Noregi. Hann segir ekki þörf á að grípa til sértækra aðgerða hér á landi í kjölfar atburðanna.

„Auðvitað er þetta eitthvað sem að getur hent hvar sem er í veröldinni þar sem að á ferðinni eru einstaklingar eins og sá sem átti þarna í hlut en við erum ekki að fara að umbylta okkar samfélagi í kjölfar þessarra atburða, alls ekki."

Hann segir öryggismál hér á landi vera í góðum farvegi, það séu hins vegar ýmsir þættir sem þurfi að taka til skoðunar, til dæmis endurskoðun á vopnalögum.

„Það er nokkuð sem að við munum skoða hér í ráðuneytinu og hugsanlega leggja nýtt frumvarp fyrir ríkisstjórnina í haust, við erum að fara yfir hvort vopnalögin eru á einhvern hátt of rúm, við horfum til þess að einstaklingar hafa byssur sem þeir nota til veiða en síðan kunna að vera önnur vopn sem eiga ekkert heima á íslenskum heimilum"

Norski fjöldamorðinginn fór mikinn á netinu áður en hann lét til skara skríða. Ráðherra telur þó ekki ástæðu til að efla eftirlit með skrifum á netinu.

„Lögreglan hér nýtur almennt mjög mikils trausts og þá hygg ég að ef að mönnum finnst eitthvað undarlegt á ferðinni þá láti menn lögregluna vita um slík það er miklu betur háttur á að hafa en að beita skipulögðu eftirliti, það tel ég reyndar vera mjög varasamt."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×