Viðskipti innlent

ÍLS getur ekki boðið sömu kjör og Landsbankinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að ekki sé hægt að leggja meira á Íbúðalánasjóð.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að ekki sé hægt að leggja meira á Íbúðalánasjóð.
Íbúðalánasjóður stendur ekki vel og vart á hann leggjandi að krefjast þess að hann bjóði sömu úrræði og Landsbankinn býður viðskiptavinum sínum. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Landsbankinn tilkynnti í gær að hann byði viðskiptavinum þríþættar aðgerðir til að bregðast við skuldum heimilanna. Meðal annars var 20% vaxtaafsláttur. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði forsætisráðherrann út í málið í dag. Meðal annars spurði hann hvort forsætisráðherra myndi beita sér fyrir því að Íslandsbanki og Arion banki færu sömu leið. Jafnframt hvort hún myndi tryggja að Sparisjóðirnir og Íbúðalánasjóður færu þessa leið.

Jóhanna sagðist fagna því að Landsbankinn hafi séð sér fært að fara þessa leið. Hún sagði eðlilegast að þeir viðskiptabankar sem eru í eigu erlendra kröfuhafa skoði sjálfir hvort þeir treystu sér að fara þessa leið.

„Varðandi Íbúðalánasjóð, þá stendur hann ekki vel. Hann fór eins langt og hann gat þegar við fórum í þessar aðgerðir - þessa 110% leið sem ég tel að sé að skila mjög miklu vegna þess að við þurfum að láta verulegar fjárhæðir í þann banka til að styrkja eiginfjárstöðu bankans,“ sagði Jóhanna. Hún sagði að ef meira yrði á Íbúðalánasjóð lagt myndi það koma niður á velferðarkerfinu og þá kannski þessu sama fólki sem býr við erfiða stöðu vegna skulda heimilanna.

Jóhanna hvatti fólk til að nota þau úrræði sem í boði eru. Greiðsluaðlögun væri að skila fólki verulega miklu. Hún sagði að um 2400 hefðu sótt um greiðsluaðlögun og 600 fengið úrlausn sinna mála. Þá væri verið að vinna úr 1900 umsóknum vegna greiðsluaðlögunar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×