Viðskipti innlent

Ísland á uppleið í mælingum Alþjóðabankans

Ísland hækkar um fjögur sæti á lista Alþjóðabankans yfir þau lönd þar sem auðveldast er að stunda viðskipti og fyrirtækjarekstur. Ísland var í 13. sæti listans í fyrra en er komið í 9. sætið í ár.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóðabankans sem ber heitið Doing Business. Í frétt um málið í börsen segir að ekki komi á óvart að Singapore er í fyrsta sæti listans sjötta árið í röð. Danir standa sig vel og eru í fimmta sæti listans en Noregur fylgir þar fast á eftir. Svíþjóð fellur hinsvegar úr 9. sæti og niður í það 13. sem Ísland vermdi áður.

Í mælingum Alþjóðabankans er m.a. tekið tillit til þátta á borð við hve auðvelt er að stofna fyrirtæki, lánamöguleika, varnir fyrir kröfuhafa og gjaldþrotameðferðir. Þá er einnig mælt hversu auðvelt er að útvega rafmagn til fyrirtækjareksturs en þar trónir Ísland á toppinum.

Það sem kemur verulega á óvart í ár er að Marokkó er hástökkvari listans. Landið fer úr 116. sæti og upp í 95. sæti milli ára.

Listi Alþjóðabankans nær yfir 183 lönd. Neðst á honum eru ýmis Afríkulönd eins og Kongó og Chad.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×