Viðskipti innlent

Ísland búið að spara 70 milljarða með því að semja ekki um Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Formaður Framsóknarflokksins segir íslenska ríkið hafa sparað um 70 milljarða króna í vaxtagreiðslur vegna Icesave á meðan ósamið er við Breta og Hollendinga.

Haft var eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í hollenska dagblaðinu De Telegraaf í gær að Hollendingar ættu að anda rólega, þar sem Íslendingar ætlaðu að standa við Icesave-skuldbindingarnar.

Málið snérist hins vegar um skilyrði og kjör. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir að Bretar og Hollendingar ættu að halda ró sinni.

„Vegna þess að það eru heilmiklar eignir þarna og það tekur tíma fyrir þær að skila sér," sagði Sigmundur Davíð.

Vandamál Íslendinga hafi verið að til hafi staðið að setja alla ábyrgð á greiðslunum yfir á ríkissjóð ásamt miklum vöxtum.

„Vextir voru alltaf vandamálið. Nú höfum við ekki verið að greiða vextina í tvö ár og því sparað um 70 milljarða," segir Sigmundur Davíð um ávinning þess að málið hafi dregist á langinn.

Sigmundur segir að ef Framsóknarmenn hefðu ekki beitt sér að fullu gegn þeim samningum sem lágu fyrir um Icesave, hefðu gífurlegar vaxtabyrðar lagst á Íslendinga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×