Innlent

Ísland græðir einna mest á innflytjendum

Stígur Helgason og Sunna Valgerðardóttir skrifar
Félagsmálaráðherra telur íslenskukennslu undirstöðu þess að innflytjendur geti tekið virkan þátt í samfélaginu.
Félagsmálaráðherra telur íslenskukennslu undirstöðu þess að innflytjendur geti tekið virkan þátt í samfélaginu.
Innflytjendur hafa jákvæðari áhrif á ríkiskassa Íslands en flestra þeirra ríkja sem við berum okkur saman við.

Fram kemur í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) að Ísland er í fimmta sæti af þeim 27 sem könnuð voru með tilliti til þess hversu mikið innflytjendur leggja til samfélagins. Hér auka þeir verga landsframleiðslu um 0,9 prósent, samanborið við 0,35 prósent að meðaltali í OECD-ríkjunum.

Útreikningarnir byggja á tölum frá 2007 til 2009, en jafnframt kemur fram að fjármálakreppan hafi hvergi dregið jafnmikið úr flæði innflytjenda og á Írlandi og Íslandi.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að þótt niðurstöðurnar byggi á nokkurra ára gömlum tölum megi draga af þeim ýmsar ályktanir.

„Sú helsta er mikilvægi virkrar þátttöku innflytjenda í atvinnulífinu og samfélaginu í heild. Vinna er og verður forsenda vaxtar og velferðar okkar allra, óháð uppruna,“ segir Eygló.

„Undirstaða virkar þátttöku til framtíðar er síðan góð íslenskukennsla og stuðningur til að kynnast og læra á íslenskt samfélag. Rannsóknin staðfestir og minnir okkur á að samfélagið í heild hagnast á því.“

Lúxemborg trónir á toppi listans. Þar auka innflytjendur landsframleiðslu um rétt rúm tvö prósent, en hafa ber í huga að þar eru innflytjendur rúmlega 42 prósent íbúa, að því er fram kemur í skýrslunni, samanborið við ellefu prósent á Íslandi.

Neikvæðustu efnahagsáhrifin hafa innflytjendur í Þýskalandi, þar sem þeir draga úr landsframleiðslu um sem nemur 1,13 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×