Viðskipti innlent

Ísland kemur verr út er varðar velferð

Ingvar Haraldsson skrifar
Michael Green, framkvæmdastjóri Social Progress Imperative.
Michael Green, framkvæmdastjóri Social Progress Imperative.
Ísland lækkar um sex sæti í velferðarvísitölunni The Social Progress Index milli ára og er neðst Norðurlandanna. Ísland var í fjórða sæti á síðasta ári en fellur í það tíunda í ár. Finnar eru efstir og hækka um sex sæti á milli ára. Norðurlöndin fimm eru öll á meðal tíu efstu.

Vísitalan er gefin út af stofnuninni The Social Progress Imperative og er ætlað að horfa til annarra þátta en landsframleiðslu til að mæla velferð í þjóðfélögum. Vísitalan raðar ríkjum heimsins eftir frammistöðu þeirra í 53 mismunandi þáttum, til dæmis gæðum menntunar, heilbrigðisþjónustu, umburðarlyndi og tækifærum í samfélögum. Samtökin héldu ráðstefnu í Hörpu í maí sem stefnt er að að verði árlegur viðburður og nokkurs konar mótvægi við efnahagsráðstefnuna í Davos í Sviss.

Michael Green, framkvæmdastjóri SPI, nefnir tvær ástæður fyrir því að Ísland lækkar á milli ára. Í fyrsta lagi séu önnur lönd að ná Íslandi, til að mynda hvað varðar öryggi einstaklinga og aðgengi að upplýsingum. Ísland standi sig ekki verr heldur séu aðrir að bæta sig. Þá hafi aðferðafræði verið breytt í afmörkuðum þáttum sem Ísland hafi ýmist komið vel út úr eða illa, sem breyti stöðu landsins.

Í tilkynningu frá samtökunum er bent á að þótt rík lönd standi almennt betur en fátæk lönd hvað varðar þá þætti sem vísitalan mælir, skýri auðæfi ekki muninn að fullu. Þannig séu tvö efstu ríkin á SPI-kvarðanum, Finnland og Kanada, í 17. og 13. sæti yfir þau ríki sem eru með hæsta landsframleiðslu á mann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×