Viðskipti innlent

Ísland sagt á barmi þjóðargjaldþrots og IMF að taka við stjórninni

Í grein á business.dk er nú sagt að Ísland sé á barmi þjóðargjaldþrots og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) sé um það bil að taka við stjórn landsins. Þá segir einnig að norrænar ríkisstjórnir muni halda að sér höndunum með fjárhagsaðstoð eins og staðan er í augnablikinu.

"Ein af ríkustu þjóðum í heimi er í frjálsu falli efnahagslega. Gífurleg en ekki óvænt niðursveifla ógnar landinu eftir áratug í lúxus á fyrsta farými með lánuðum peningum," segir m.a. í greininni.

Meðal þeirra sem rætt er við er Lars Christensen forstöðumann greiningar Danske Bank. Sagt er að hann hafi séð fyrir þessa erfiðleika þegar árið 2006. "Þróunin á síðustu dögum staðfestir. því miður, alltof augljóslega þessa döpru spá mína," segir Christensen í samtali við business.dk.

"Staðan er mjög óljós en við erum með það á hreinu að íslenska ríkisstjórnin geti ekki leyst þessi vandamál án utanaðkomandi aðstoðar, án hjálpar frá IMF," segir hann ennfremur.

 

Bjarke Roed-Frederiksen hjá greiningu Nordea er sammála þessu mati Christensen. Hann skrifar á vefsíðu sinni "Iceland Update" að erfitt sé að sjá að Ísland komist hjá því að taka IMF-kúrinn. IMF hafi raunar þegar sent menn til Íslands til að kanna umfang skaðans.

Frederiksen segir jafnframt að Nils Bernstein seðlabankastjóri Danmerkur hafi verið í sambandi við kollega sinn í Seðlabanka Íslands. En Danir hafi einfaldlega ekki afl til þess að leysa vandamálin. Það geti verið skýringin á því að danska stjórnin hafi haldið að sér höndunum með að nota skattpeninga þegna sinna í björgunarpakka til íslensks efnahagslífs.

Lars Christensen á heldur ekki von á að norrænu löndin muni veita Íslandi efnahagsaðstoð af stærri gerðinni.

Greininni í business.dk lýkur á þessum orðum: "Nákvæmlega til hvaða læknisaðgerða IMF muni grípa er óvíst í augnablikinu en það mun koma verulega við kaunin á almennum Íslendingum og mun í fyrstu ganga út á að skera niður skuldirnar."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×