Innlent

Íslandskynning bönnuð börnum

SB skrifar
Senan umdeilda úr Inspired by Iceland myndbandinu.
Senan umdeilda úr Inspired by Iceland myndbandinu.
Aðalmyndband Inspired by Iceland herferðarinnar hefur verið bannað börnum innan átján ára á vefnum YouTube. Þegar reynt er að opna myndbandið kemur tilkynning á skjáinn þar sem sagt er að notendur vefsins hafi tilkynnt að innihald myndbandsins eigi ekki erindi við börn. Einar Karl Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Inspired by Iceland, vissi ekki af málinu þegar Vísir hafði samband við hann.

„Ætli þetta sé ekki út af nektarsenunni," sagði Einar Karl en í einu atriði myndbandsins sést fönguleg íslensk snót á Evuklæðum einum fata í heitri laug í guðsgrænni náttúrunni. Myndarlegur ungur maður sem jafnframt er nakinn hleypur til stúlkunnar og þau fallast í faðma og kyssast í kvöldsólinni.

Þetta atriði hefur reyndar verið klippt úr myndbandinu á öðrum vinsælum myndbandavef Vimeo. Þar má finna báðar útgáfur myndbandsins og er útgáfan þar sem sést í hin nöktu náttúrubörn talsvert vinsælli - 1,2 milljónir hafa borið hina íslensku fegurð augum á meðan hin ritskoðaða útgáfu hefur aðeins fengið 20 þúsund heimsóknir.

„Við tókum þá ákvörðun að vera með þetta í tveimur útgáfum þar sem nektarsenan passar ekki í sumum löndum eða hjá ákveðnum hópum," segir Einar Karl. Spurður hvort aldurstakmarkið á Youtube geti haft slæm áhrif á herferðina segist hann ekki halda það. „Nei, ætli það nokkuð. Ég hef bara ekki heyrt um þetta áður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×