Innlent

Íslandsvinur forðast hina ferðamennina

Birgir H skrifar
Fred segist ekki hafa verið kalt á ferðum sínum um landið núna í maí. "Það er samt búið að vera hvasst og það hefur verið pirrandi.“
Fred segist ekki hafa verið kalt á ferðum sínum um landið núna í maí. "Það er samt búið að vera hvasst og það hefur verið pirrandi.“ fréttablaðið/vilhelm

Fred van Pie, verkfræðingur frá Hollandi, segist forðast fjölsóttustu ferðamannastaði landsins á mörgum ferðum sínum um landið. Hann hefur komið hingað árlega síðan 1991, búið í tjaldi og gengið á fjöll. „Ég sæki í kyrrðina og get verið einsamall dögum saman á fjöllum,“ segir Fred, sem var að borða morgunmat á tjaldstæðinu í Laugardal þegar blaðamaður hafði upp á honum. Hann gisti þar í fyrrinótt eftir að hafa gengið á fjöll frá Borgarfirði eystra. „Ég kem einu sinni á ári, tvisvar ef yfirmaður minn leyfir.“

Fred segist vera fyrr á ferðinni í ár en vanalega vegna þess að hann langaði að ganga Laugaveginn inn í Landmannalaugar áður en vegir þangað opna. Á þann vinsæla stað er hann hættur að fara á háannatíma. „Það er of mikið af fólki. Ég kem hingað til að njóta kyrrðarinnar.“

Á ferðum sínum hefur Fred lent í ýmsu. Í fyrra tók hann sér þrjá mánuði í að ganga frá Hornbjargi að Gerpi, þvert yfir Ísland, í júlí og fram í september. „Það er hægt að gera þetta á mun skemmri tíma en ég vil geta stoppað nokkrar nætur á fallegum stöðum og notið.“

Skemmst er að minnast þess óveðurs sem gekk yfir norðausturhluta landsins í september í fyrra. Fred fór ekki varhluta af veðrinu enda staddur norðan Vatnajökuls þegar það gekk yfir. „Ég vaknaði í skálanum og sá að það snjóaði en lagði af stað þó að ég hefði verið varaður við. Það var skemmtileg upplifun,“ segir hann og glottir. Spurður hvort það sé betra að vera ferðamaður núna eða fyrir tuttugu árum segir hann afdráttarlaust þá. „Það er bara of mikið af fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×