Innlent

Íslendingar fjórða feitasta þjóð í Evrópu

Karen Kjartansdóttir skrifar
Fimmtungur landsmanna þjáist af alvarlegustu tegund ofþyngdar og eru Íslendingar orðnir fjórða feitasta þjóð Evrópu. Landlæknir segir vandann gríðarlega alvarlegan.

Um helmingur Evrópubúa er orðinn of þungur og fjöldi þeirra sem glímir við offitu, sem er alvarlegasta tegund ofþyngdar, hefur tvöfaldast í álfunni undanfarin 20 ár.

BBC, eða Breska ríkissjónvarpið, fjallar í dag um málið og birtir töflu frá OECD eða Efnahags- og framfararstofnun Evrópu en þar má meðal annars sjá upplýsingar um allra þyngstu þjóðirnar, eða þær þjóðir sem verst standa eins og BBC orðar það.

Bretar eru þyngstir, Írar næstir á eftir, þriðjir eru svo Möltubúar en Íslendingar eru fjórðir á lista þeirra Evrópuþjóða sem verst standa.

Léttastir eru Rúmenar, því næst Svisslendingar, svo Ítalir en næst á eftir koma nágrannar okkar Norðmenn og Svíar og eru þeir því í allt annarri stöðu en Íslendingar.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir vandann mjög alvarlegan, lífsgæði fólks sem glímir við offitu séu oft lakari en annarra. Þá kosti þessi vandi samfélagið mjög mikið því þeir sem glími við ofittu þurfi oft á ýmis konar aðgerðum og þjónustu að halda sem reyni á heilbrigðiskerfið.

„Þetta eru virkilega alvarlegar tölur vegna þess að þær eru raunverulega að segja við okkur að þyngdaraukning landsmanna hefur vaxið fram úr hófi, þetta hefur aukið álag á hjarta- og æðakerfið og afleiðingarnar eru fleiri sjúkdómar sem svo leiða til fleiri dauðsfalla og ótímabærra, fyrir utan almenna þreytu og slitgigt og fleira sem fylgir ofmikill þyngd," segir Geir.

Hann segir afar brýnt að vera vakandi fyrir þessu vandamáli og bregðast við því einkum eigi að reyna að fyrirbyggja vanda barna með forvörnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×