Innlent

Íslendingar reknir úr EES verði aðildarumsókn dregin til baka

Höskuldur Kári Schram skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir best fyrir Íslendinga að segja sig úr EES verði umsókn um ESB aðild dregin til baka.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir best fyrir Íslendinga að segja sig úr EES verði umsókn um ESB aðild dregin til baka.

Íslendingum verður væntanlega kastað út af Evrópska efnhagssvæðinu verði aðildarumsókn að Evrópusambandinu dregin til baka. Þetta er mat Eiríks Bergmanns stjórnmálafræðings. Hann segir að best væri fyrir Íslendinga að segja upp EES samningnum ef umsóknin verður dregin til baka.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði í lok síðasta mánaðar að Íslendingar ættu að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Þingsálytkunartillaga þess efnis hefur verið lögð fram á Alþingi en Vinstri grænir eru klofnir í afstöðu sinni til málsins.

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir að verði umsóknin dregin til baka muni EES samningurinn rakna upp þar sem Íslendingar uppfylla hann ekki nú þegar vegna gjaldeyrishafta.

„Það stendur beinlínis í honum að það sé skylda framkvæmdastjórnar ESB að ef eitthvert ríki uppfyllir ekki samninginn eins og við gerum ekki að einum fjórða hluta til þá beri framkvæmdastjórninni að segja upp þeim hluta samningsins."

Evrópusambandið hafi þó vikið frá þessari reglu tímabundið vegna aðildarumsóknar Íslands.

„Síðan er annað ákvæði í samningum sem kveður á um einsleitni á öllu svæðinu, að um leið er búið að segja upp samningnum á tilteknu sviði þá raknar hann að sjálfu sér upp vegna annarra ákvæða og getur ekki lifað áfram.

Að mati Eiríks væri best fyrir Íslendinga að ganga alla leið og segja upp EES samningnum ef aðildarumsóknin verður dregin til baka. Það hafi sýnt sig í hruninu að EES samningurinn bjóði ekki upp neinar varnir fyrir Íslendinga og áhættan því of mikil fyrir svona lítið hagkerfi.

„Ef við ætlum að horfa á þetta bara kalt út frá hagsmunamati þá er valið að ganga alla leið inn í ESB eða út að öllu leiti, út úr EES, og finna aðra lausn, og ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort sé betra á þessari stundu."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×