Innlent

Íslendingar rífa í sig frystikistur

Íslendingar búa sig undir harðan vetur og hafa rifið frystikistur, hakkavélar og brauðvélar út úr verslunum. Raftækjaverslanir eru fullar af vínkælum, súkkulaðigosbrunnum, tölvustýrðum ísskápum, sjálfvirkum kaffikönnum og öðru fíneríi, sem enginn vill eða getur fjárfest í.

Tæki sem myntkörfukynslóðin hefur komist bærilega af án eru hins vegar rifin úr verslunum og ekki kemur það til af góðu. Dökkar horfur í atvinnumálum, óðaverðbólguspá og gjaldeyrisþurrð virðist kalla fram þau viðbrögð að fólk kemur sér upp matarbirgðum. Upphófst þá frystikistuæðið.

Og skipti þá engu máli hversu stór frystikistan var. 400 lítra frystikysta er jú engin smásmíð.

Þá voru frystikistur og skápar fullir af slátri en þegar þau eru keypt fylgja með lifrar sem þarf að hakka. Upphófst þá hakkavélaæðið. Þær eru uppseldar.

Sérstakt er líka brauðvélaæðið. Tæki sem var kynnt til sögunnar á Heimilisýningunni í kringum 1984, var þá rifið út og endaði í geymslum víða um land. Nú meira en tuttugu árum síðar hefur annað brauðvélaæði riðið yfir. Þær eru uppseldar. Nóg er hins vegar til að vínkælum og súkkulaðigosbrunnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×