Innlent

Íslensk þáttaröð keppir um gull á alþjóðlegri kvikmyndahátíð

Baldvin Þormóðsson skrifar
Kvikmyndahátíðin er haldin í borginni Olomouc í Tékklandi.
Kvikmyndahátíðin er haldin í borginni Olomouc í Tékklandi. vísir/afo
Sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar sem helguð var fjölbreyttum vísindarannsóknum við Háskóla Íslands, mun keppa um gullverðlaun í flokki bestu vísindastuttmynda ársins á vísinda- og fræðslumyndahátíðinni AFO í Tékklandi.

Um er að ræða eina virtustu kvikmyndahátíð í Evrópu á sviði heimilda- og fræðslumynda um vísindi.

Fyrsti þátturinn í röðinni um Fjársjóður framtíðar verður sýndur sérstaklega á hátíðinni en hún verður haldin nú í apríl í háskólaborginni Olomouc.

Þættirnir voru sýndir á RÚV sumarið 2013 og vöktu mikla athygli. Markmiðið með þáttunum var að veita sýn á hið fjölbreytta rannsóknastarf sem vísindamenn Háskóla Íslands sinna við afar ólíkar aðstæður og var þeim fylgt við rannsóknir á ferð og flugi víða um land.

Þættirnir náðu til vísindarannsókna á öllum fræðasviðum Háskóla Íslands en í brennipunkti voru þó rannsóknir sem tengjast auðlindum Íslands, ekki síst hafinu og víðernum. Þá var hugað að málefnum innflytjenda auk þess sem glæpir og refsing komu við sögu. Til stendur að endursýna þættina nú í vor.

AFO-hátíðin, International Festival of Science Documentary Films – Academia Film Olomouc, er ein sú elsta á þessu sviði í Evrópu og mun fagna hálfrar aldar afmæli á næsta ári. Árlega keppa margir helstu framleiðendur heims á sviði vísindamynda um verðlaun á hátíðinni en í hópi þeirra eru m.a. sjónvarpsstöðvarnar BBC, National Geographic og Discovery Channel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×