Skoðun

Íslenskir bændur og ESB

Þröstur Haraldsson skrifar
Það var fróðlegt viðtalið sem Sigurjón Már Egilsson átti við ungan stjórnmálafræðing, Ingu Dís Richter, í þætti sínum Sprengisandi fyrir skömmu. Þar lýsti hún reynslu Finna af þátttöku í margvíslegum aðgerðum Evrópusambandsins til þess að ýta undir þróun í dreifbýli, jafnt á sviði atvinnumála sem félags- og búsetumála. Niðurstaða Ingu Dísar var sú að finnskir bændur yndu yfirleitt frekar glaðir við sitt í sínu dreifbýli og að íslenskir bændur og íslenskt samfélag gætu lært mikið af reynslu þeirra, hvort sem Ísland gerist aðildarríki ESB eður ei.

Inga Dís lýsir því í meistaraprófsritgerð sinni hvað hafi gerst í finnskum landbúnaði eftir að landið gekk í ESB. Þar varð umtalsverð fækkun bændabýla en þau sem eftir urðu eru stærri en áður svo heildarniðurstaðan er sú að nýting lands til ræktunar er svipuð og hún hefur lengi verið og framleiðsla hefur heldur aukist í flestum greinum. Og hún vitnar í framámenn í finnskum landbúnaði sem segja að þessi þróun sé alþjóðleg og hefði væntanlega orðið svipuð þótt Finnar hefðu staðið utan ESB.

Þetta hlýtur að vekja athygli íslenskra bænda sem merkilegt nokk hafa upplifað svipaða eða jafnvel öllu meiri fækkun og stækkun býla sinna á undanförnum árum. Það er svolítið erfitt um samanburð vegna ólíkra aðferða við tölfræðisöfnun en sé litið í Hagtölur landbúnaðarins kemur í ljós að þeim bændabýlum sem hafa greiðslumark í sauðfjárbúskap og/eða mjólkurframleiðslu fækkaði um nánast sömu prósentutölu – rúmlega 30% – og finnskum bændabýlum á árabilinu 1994 til 2004, fyrsta áratugnum eftir að Finnar gengu í ESB. Hins vegar kemur þessi breyting misjafnt niður á búgreinum og sé litið til mjólkurframleiðslu þá hefur fækkun framleiðenda orðið enn meiri hér á landi. Kúabú á Íslandi voru um 1.700 árið 1993 en um þessar mundir er mjólk framleidd á innan við 700 bæjum. Það er um það bil 60% fækkun. Kúnum hefur fækkað en þær framleiða meiri mjólk. Í Finnlandi hefur hægt á fækkun bændabýla en hér á landi blasir við að það er lítill grundvöllur fyrir öllum þeim sauðfjárbúum sem hér eru, nema sem aukagetu meðfram öðrum rekstri eða starfi bænda.

Byggðastefna sem virkar

Evrópusambandið hefur brugðist við þessari þróun með þeim hætti að breyta stuðningi sínum við bændur og aðra íbúa í dreifbýli. Í stað þess að veita bændum styrk út á tiltekið framleiðslumagn, svo sem lítra af mjólk eða kíló af kjöti, hafa styrkirnir verið færðir yfir á flatarmál ræktarlands og fjölda gripa. Þetta er meðal annars gert í ljósi þess að með stækkun býlanna hefur rekstur þeirra orðið betri og arðbærari og þar með minni ástæða til að styrkja framleiðsluna. Hluti stuðningsins hefur svo verið fluttur yfir í umhverfis- og orkumál, ekki kannski síst í ljósi þess að auknum stórrekstri í landbúnaði fylgir talsverður umhverfisvandi sem taka þarf á (úrgangur frá búfénaði, efnamengun af völdum áburðar og annarra efna sem landbúnaður notar, að ógleymdum gróðurhúsaáhrifunum).

En sá þáttur sem farið hefur hvað örast vaxandi hjá ESB eru styrkirnar sem Inga Dís fjallar um í ritgerð sinni. Þeim er ætlað að sporna gegn þeirri þróun sem við þekkjum mæta vel hér á landi. Fækkun bændabýla og aukin tæknivæðing í landbúnaði hefur leitt til þess að íbúum í sveitum landsins hefur fækkað mikið. Við það brestur grundvöllur ýmiss konar þjónustu, svo sem skóla, velferðarþjónustu og verslunar. Sveitirnar hafa dregist aftur úr þéttbýlinu sem ákjósanleg búsetusvæði og við það fækkar íbúunum enn frekar. Það er þessi vítahringur sem dreifbýlisþróunarstyrkjum ESB er ætlað að rjúfa og ef marka má reynsluna frá Finnlandi hafa þeir gagnast býsna vel í því að ýta undir allskyns aukabúgreinar og rekstur smærri fyrirtækja sem laða að sér vinnuafl og íbúa í sveitunum. Það má ýmislegt segja um þær aðgerðir sem ESB hefur gripið til í tímans rás en þessir styrkir eru sagðir vera það sem á ensku nefnist „success story“, aðgerðir sem duga.

Sennilega er það þessi þróun sem hefur gert það að verkum að flestir framámenn í finnskum landbúnaði hafa snúist frá heitri andstöðu við ESB og segjast nú vera hlynntir aðild Finna. Það gengur einfaldlega vel í finnskum landbúnaði þessi misserin og engin þörf á að dvelja lengur við þá erfiðleika sem aðild fylgdu í upphafi þegar bændum fækkaði ört.

Þröngt sjónarhorn

Höfum hugfast að þeim fækkaði hlutfallslega jafnört hér á landi. En hvað hefur verið gert til þess að mæta þeirri þróun? Við vitum öll að það hefur verið afar tilviljanakennt og ómarkvisst af hálfu hins opinbera og hagsmunasamtaka, þótt vitaskuld hafi duglegt fólk bjargað sér með einhverjum hætti – nú eða flutt á mölina.

Það er sorglegt að segja frá því en í röðum forystumanna Bændasamtakanna hefur gætt viðvarandi áhugaleysis á því að bregðast við þróuninni með öðrum hætti en þeim að standa vörð um hið hefðbundna styrkjakerfi í sauðfjár- og kúabúskap og að nokkru leyti grænmetisframleiðslu, auk tollverndar. Menn hafa tekið allt að því trúarlega afstöðu gegn aðild að ESB og safnað síðan rökum gegn henni en bægt frá sér og bændum öllu því sem telja má jákvætt við aðild eða það sem unnið gæti gegn neikvæðum afleiðingum aðildar á íslenskan landbúnað.

Röksemdir bændaforystunnar gegn ESB byggjast fyrst og fremst á útreikningum sem gerðir hafa verið á ýmsum tímum á því hver áhrif landbúnaðarstefnu ESB (Common Agricultural Policy – CAP) yrðu á íslenskan landbúnað daginn sem Ísland yrði aðili að ESB. Samkvæmt þeim myndi mjólkurframleiðsla dragast saman um helming, sala drykkjarmjólkur og annarrar ferskvöru héldist að mestu leyti vegna fjarlægðarverndar en sala og þar með framleiðsla á jógúrt, ostum og öðrum vörum með lengra geymsluþol drægist verulega saman eða legðist hreinlega af.

Hvað aðrar búgreinar áhrærir hljóða útreikningarnir á þann veg að framleiðsla á hvítu kjöti, alifuglum og svínum, legðist að heita má niður. Hins vegar yrðu áhrifin á sauðfjárrækt ekki merkjanleg, nema að innflutningur á ódýrara hvítu kjöti héldi áfram að draga úr lambakjötssölu innanlands (sú þróun hefur reyndar verið ansi hröð undanfarin ár). Garðyrkjan myndi standa breytingarnar af sér að verulegu leyti. Grænmetisframleiðsla hefur þegar gengið í gegnum afnám tollverndar og plumar sig vel en blómaframleiðsla gæti lent í kröggum andspænis evrópskum stórfyrirtækjum í blómaframleiðslu. Þar búast menn við að það sama gerist hér á landi og í Danmörku og Finnlandi, að hollensk fyrirtæki ryðji innlendum fyrirtækjum út af markaðnum.

Það sem vantar

Þetta er í grófum dráttum myndin sem Bændasamtökun draga upp af afleiðingum ESB-aðildar. Við hana má gera heilmiklar athugasemdir.

Fyrir það fyrsta er ekki gert ráð fyrir neinum undanþágum frá eða aðlögun að CAP sem um gæti samist í aðildarviðræðum (nema kannski stuðningi við heimskautalandbúnað eins og Svíar og Finnar sömdu um á sínum tíma). Á það mun reyna í samningaviðræðunum en bændaforystan er fyrirfram búin að ákveða að slíkar undanþágur muni ekki hafa nein áhrif á heildarmyndina.

Í öðru lagi er ekki reiknað með að íslensk landbúnaðarframleiðsla njóti neinna þeirra styrkja sem nú eru veittir í krafti CAP en eru ekki tíðkaðir hér á landi. Þar ber kannski hæst kornrækt sem heur farið vaxandi hér á landi undanfarin ár. Í ESB mega bændur vænta þess að fá allt upp í 90.000 kr. í styrk á hvern hektara kornræktarlands en hér á landi er styrkurinn í mesta lagi 15.000 kr. og á honum er þak. Þetta gæti skipt verulegu máli fyrir kúabændur, svína- og kjúklingaræktendur sem nota mikið fóðurkorn.

Í þriðja lagi hefur bændaforystan ekki sýnt áhuga á að ræða þá miklu möguleika sem felast í því að á Íslandi eru einstakir búfjárstofnar (nautgripir, sauðfé, geitur, hestar, hænsni, hundar) sem hvergi eru til annars staðar.

Í fjórða lagi hefur bændaforystan afar lítinn áhuga á að ýta undir eða styðja við lífrænan landbúnað, þrátt fyrir að aðstæður hér á landi fyrir slíkan landbúnað séu mjög góðar. Það þarf í raun afar litlu að breyta til þess að verulegur hluti íslenskrar landbúnaðarframleiðslu standist þær kröfur sem gerðar eru til lífrænnar framleiðslu.

Í fimmta lagi hefur bændaforystan gætt þess að ræða sem minnst um þá möguleika sem felast í útflutningi á gæðaframleiðslu íslenskra bænda eftir að útflutningshömlum er aflétt. Sauðfjárbændur gætu til dæmis flutt út talsvert meira af kjöti þessi misserin en tollkvótar ESB heimila.

Í sjötta og síðasta lagi hefur ekki mátt nefna í Bændahöllinni þá styrki sem fjallað var um á Sprengisandi á dögunum, styrki til dreifbýlisþróunar.

Hálffullt eða hálftómt?

Ég ætla ekki að elta ólar við öll þau undarlegu rök sem bændaforystan hefur beitt í umræðunni, svo sem um aðlögunarferlið eða að ESB vilji íslenskan landbúnað feigan. Þau dæma sig sjálf. En þegar kemur að efnislegum rökum fer púðrið allt í að tíunda margvísleg mistök sem ESB hefur gert sig sekt um sem eru vissulega ekki til eftirbreytni. Þau mistök er hins vegar hægt að nota sem röksemdir í samningaviðræðum fyrir því að haga hlutunum öðruvísi hér á landi, enda engin ástæða til að endurtaka syndir fortíðarinnar. Mér sýnist að á nýafstöðum rýnifundi um landbúnaðarmál hafi þetta sjónarmið mætt góðum skilningi embættismanna ESB.

Bændur gætu því sem hægast prófað að athuga hvort ESB-glasið er hálffullt eða hálftómt. Sumt er vel gert í ESB rétt eins og á Íslandi, annað miður. Meðal þess sem hefur skilað umtalsverðum árangri er einmitt það sem rætt var um í upphafi greinarinnar. Því hefur verið haldið fram að eina byggðastefnan sem skipti máli hér á landi sé að standa vörð um stuðningskerfi landbúnaðarins. Þau rök halda engan veginn í samhengi við ESB-aðild. Bæði er sótt hart að þessu stuðningskerfi úr öðrum áttum en frá Brussel, einkum frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), og svo dugar þetta stuðningskerfi afar lítið til að sporna við fólksfækkun í sveitum landsins, það sýnir sagan. Sennilega gætu íslenskir bændur sótt sér mun meiri og árangursríkari stuðning til Evrópusambandsins á báðum þessum vígstöðvum en íslenskir skattgreiðendur eru reiðubúnir að standa undir.

Ríkjandi málflutningur bændaforystunnar gerir lítið úr þeim fjölmörgu og spennandi möguleikum sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir og er stéttinni engan veginn til sóma. Þetta ættu fulltrúar á Búnaðarþingi sem sett verður á morgun að taka til umræðu.

 




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×