Innlent

Íslenskir karlar eru langlífastir í Evrópu

Mynd/Róbert
Íslenskir karlar voru langlífastir í Evrópu árið 2011. Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2011 var meðalævilengd íslenskra karla 79,8 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal Evrópuþjóða það ár ásamt Sviss. Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Rússlandi (62,4), Hvíta-Rússlandi (64,0) og Úkraínu (65,7 ár).

Íslenskar konur í sjötta sæti Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær hafa dregist nokkuð afturúr stallsystrum sínum í Evrópu á þessari öld. Ástæðan fyrir því er hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum.

Árið 2011 var meðalævilengd íslenskra kvenna 83,2 ár og skipuðu þær sjötta sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur í Frakklandi (85,0 ár), Spáni (84,6 ár) og Sviss (84,3 ár). Meðalævilengd evrópskra kvenna er styst í Rússlandi (74,3 ár) og Moldóvu (74,6 ár).

Árið 2012 gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 80,8 ára aldri en stúlkur 83,9 árum. Á fimm ára tímabili, 2006-2010, var meðalævi karla 79,6 ár en kvenna 83,3 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×