Viðskipti innlent

Íslenskir lífeyrissjóðir gáfu lítið fyrir varnaðarorð Buffetts

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, t.v. Hann segir kaupin í Icelandair Group góða fjárfestingu.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, t.v. Hann segir kaupin í Icelandair Group góða fjárfestingu.

„Aldrei, aldrei, aldrei fjárfesta í flugfélögum" segir ríkasti og sigursælasti fjárfestir í heimi, Warren Buffett. Þrátt fyrir þessi varnaðarorð ákváðu lífeyrissjóðirnir að fyrsta stóra fjárfestingin eftir hrun yrði í Icelandair Group í gegnum Framtakssjóð Íslands.

Warren Buffett einn ríkasti maður heims og farsælasti fjárfestir sögunnar segir að flugfélög séu eitthvað sem fjárfestar eigi alltaf að forðast. Þetta kemur t.d fram í bókinni Warren Buffett aðferðin, eftir Robert G. Hagström. „Aldrei, aldrei, aldrei," segir Buffett, því hlutafé flugfélaga sé reglulega þurrkað út og félögin endurfjármögnuð, stöðugleikinn sé lítill sem enginn. Samt ákváðu íslensku lífeyrissjóðirnir í gegnum Framtakssjóð Íslands að beina fyrstu stóru fjárfestingu sinni að Icelandair, en sjóðurinn keypti þrjátíu prósenta hlut fyrir þrjá milljarða króna. Þá keypti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 12 prósenta hlut í fyrirtækinu á einn milljarð króna.

„Við teljum Icelandair Group álitlegan fjárfestingarkost og höfum mikla trú á fyrirtækinu og starfsfólki þess," segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.

Icelandair Group tapaði rúmlega 18 milljörðum króna samtals á síðasta ári og árið þar á undan. Finnbogi segir þó grunnrekstur fyrirtækisins góðan.

Hinn 15. apríl birtist verðmat þýska bankans DVB Bank á Icelandair Group eftir fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins og var það niðurstaða bankans að eigið fé væri á bilinu 16-25 milljarða króna virði. Ef miðað er við miðju þessa verðbils væri þrjátíu prósenta hlutur í fyrirtækinu sex milljarða króna virði, en Framtakssjóður Íslands greiddi aðeins helminginn af því.

Aðspurður segir Finnbogi að samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóðanna sé nokkur og skoða megi kaupin í því samhengi. „Það er gríðarlega mikilvægt að þetta fyrirtæki standi traustum fótum en fyrst og fremst lítum við á þetta sem arðbæra fjárfestingu til langs tíma," segir Finnbogi.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×