Innlent

Ítalir styðja aðildarumsókn Íslands að ESB

Össur ásamt Frattini
Össur ásamt Frattini mynd/ítalska utanríkisráðuneytið
Ítalski utanríkisráðherrann, Franco Frattini, lýsti fullum stuðningi við aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu á fundi sem hann átti í morgun með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Ráðherrarnir fóru yfir stöðuna í aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið og lýsti Frattini eindregnum vilja Ítala til að viðræðurnar gengju sem greiðast. Hann hvatti Íslendinga til að knýja á dyr Ítala ef flækjur kæmu upp í samningunum, og kvaðst hafa mikinn skilning á mikilvægi fiskveiða í efnahagslífi Íslendinga.

Utanríkisráðherran árréttaði sérstaklega hversu langt Íslendingar væru nú þegar komnir í samstarfi við Evrópuríki gegnum EES samninginn, segir í tilkynningunni.

„Frattini ræddi stöðu mála á evrusvæðinu og aðgerðir sem gripið hefur verið til meðal annars á Ítalíu þar sem ríkisstjórnin tók í morgun ákvörðun um aðgerðir til að ná niður fjárlagahalla á næstu tveimur árum. Kvaðst hann þess fullviss að evran kæmi sterkari út úr þeim aðgerðum sem nú er verið að grípa til á evrusvæðinu.

Ráðherrarnir ræddu ástandið í Líbíu að loknum sigri uppreisnarmanna og voru sammála um mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið tæki virkan þátt í að tryggja framgang lýðræðis í landinu og styddi við efnahagslega uppbyggingu.

Málefni norðurslóða voru rædd sérstaklega og hrósaði Frattini frumkvæði Íslendinga á því sviði. Hann þakkaði sérstaklega eindreginn stuðning Íslands við áheyrnaraðild Ítala að norðurskautsráðinu. Frattini utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst miklum áhuga á norðurslóðum út frá vísindastarfi Ítala á heimskautasvæðunum.    

Ítalir hafa boðið Íslendingum til samstarfs um rannsóknir á eldfjöllum og eldfjallaösku í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli, en Ítalía og Ísland eru einu lönd Evrópu þar sem virk eldjföll láta reglulega að sér kveða. Ræddu ráðherrarnir tillögur um að dýpka þetta samstarf, meðal annars með hugsanlegri aðkomu Evrópusambandsins.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×