Innlent

Jarðeðlisfræðingur: Orðum ofaukið að gosinu sé lokið

Enn koma óróakviður frá gosinu í Grímsvötnum. Gjóskusprengingar geta orðið á mörgum stöðum í sprungunni og því mjög mikilvægt að ferðamenn fari með gát.

Gosið í Grímsvötnum er hægt minnkandi. Gjóskusprengingar hafa mælst í gígnum í dag og kviður af óróa en óróinn dettur mikið niður þess á milli. Engin merki eru um innstreymi kviku og því ólíklegt að gosið taki sig upp að nýju segir jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni.

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur, segir það orðum ofaukið að gosinu sé lokið. Hann leggur áherslu á að gjóskusprengingar séu mjög tilviljanakenndar. Þær einskorðist ekki við ískatlinn sjálfan heldur komi einnig úr öðrum stöðum í sprungunni. Ferðamenn eigi því alls ekki að fara of nálægt sprungunni. Hann segir hins vegar gosið vera í dauðaslitunum og það þurfi að gefa því nokkra daga til að pústa út áður en hægt er að lýsa yfir goslokum.

Flug hér á landi og erlendis er komið í eðlilegt horf eftir truflanir vegna ösku undanfarna daga. Engu loftrými hefur verið lokað í dag og ekki búist við frekari áhrifum á flugumferð samkvæmt Evrópska loftferðaeftirlitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×