Innlent

Jarðskjálfti veldur ekki áhyggjum

Svavar Hávarðsson skrifar
Bakki við Húsavík.
Bakki við Húsavík.
Vegna iðnaðarstarfsemi á Bakka við Húsavík verður að tryggja aðdrætti frá Húsavíkurhöfn að iðnaðarsvæðinu. Vegtengingin sem er á teikniborðinu er að stærstum hluta jarðgöng í gegnum Húsavíkurhöfða. Á sama tíma benda rannsóknir til að nægileg spenna sé á Húsavíkurmisgenginu fyrir stóran jarðskjálfta. Spurt er um hugsanlegar hættur varðandi jarðgöngin en annar vegskáli ganganna er við virkustu sprungugreinina á svæðinu.

Umsvif

Ef allar áætlanir um uppbyggingu á Bakka ganga eftir er áætlað að árlega muni fara um 1,5 milljónir tonna af hráefni og afurðum um Húsavíkurhöfn. Sem stendur er lítið geymslusvæði við höfnina og takmarkaðir möguleikar á stækkun þess.

Til að mæta þeim takmörkunum er stefnt að því að flytja allt hráefnið beint á iðnaðarlóð á Bakka jafnóðum og það kemur til hafnar. Stefnt er að því að nota sérútbúna bílalest sem getur tekið allt að 85 tonn í hverri ferð, með heildarþunga upp á 123 tonn. Slíkar bílalestir eru 50 metra langar.

Stysta leið á milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarlóðarinnar á Bakka er um 1,8 kílómetrar og liggur um Húsavíkurhöfðann sem er um 70 metra hár þar sem hann er hæstur. Þar í gegn er ætlunin að leggja göng; verk sem Vegagerðin mun annast ef áætlanir ganga eftir. Lengd ganganna yrði um 1.100 metrar með vegskálum sem yrðu við núverandi hafnarsvæði og í Laugardal í norðri.

Þessi framkvæmd fellur undir lög um uppbyggingu innviða sem fyrri ríkisstjórn samþykkti í apríl 2013, en þessi verkþáttur er talinn kosta um 1,8 milljarða króna miðað við verðlag í lok árs 2012

Sprungan

Fréttablaðið greindi frá því 25. júní að nýjustu rannsóknir jarðvísindamanna sýna að spenna í Húsavíkurmisgenginu svokallaða sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni 6,8 á Richter, en svo stórir skjálftar og stærri eru þekktir á svæðinu.

Það er mat Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, að upplýsingarnar ættu að skoðast í ljósi ákvarðana um uppbyggingu mannvirkja, ekki síst kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka enda væri verksmiðjan bókstaflega ofan í virkasta sprungusvæðinu. Nefndi hann sérstaklega sprungugrein kennda við Skjólbrekku og aðra sem kennd er við Laugardal – þar sem jarðgöngin kæmu upp úr jörðinni norðan megin.

Sprungugreinarnar tvær eru þær virkustu á Húsavíkurmisgenginu. Því yrðu göngin staðsett skammt frá stærstu jarðskjálftasprungum á svæðinu – þar sem ein mesta jarðskjálftahættan er á landinu.





Öruggustu mannvirkin

„Ekki eru fyrirséð nein sérstök vandkvæði vegna þessarar hættu enda yrði tekið tillit til hennar í hönnun verksins. Reynslan sýnir enn fremur að jarðgöng í bergi eru ein öruggustu mannvirkin í jarðskjálftum,“ segir í skýrslu GeoTek ehf., sem vann jarðfræðirannsókn fyrir Vegagerðina vegna líklegra framkvæmda í Húsavíkurhöfða.

Björn A. Harðarson, jarðverkfræðingur hjá GeoTek, segir að vissulega hafi verið litið sérstaklega til þess að misgengið í Laugardalnum, frá fjalli til fjöru, liggur rétt fyrir utan gangamunnann. Allir þekki til þessa og sagna af jarðhræringum á fyrri tíð.

„En við teljum að þetta misgengi útiloki alls ekki mannvirki á þessum stað. Jarðgöng þola ótrúlega vel jarðskjálfta og í raun öruggara að vera inni í göngunum en á yfirborði,“ segir Björn og bætir reyndar við að ekki hafi verið tekið tillit til eins sterks skjálfta og jarðvísindamenn tala um, eða allt að 7,0 á Richter. Hann segir útilokað að göng hrynji saman við svo sterkan skjálfta, fólk þurfi engar áhyggjur að hafa af slíku.

Gísli Eiríksson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, vann, ásamt kollega sínum Birgi Guðmundssyni, minnisblað vegna iðnaðarvegarins á milli hafnarinnar og Bakka. Hann tekur undir orðs Björns um hversu vel jarðgöng standa af sér jarðskjálfta. Hins vegar segir Gísli að skoða verði sérstaklega gangagerð og vegskála með tilliti til stórra jarðskjálfta. Í raun sé ekki um vandamál að ræða en því fylgi óneitanlega aukinn kostnaður.

Áhætta og öryggi

Í frummatsskýrslu umhverfismats vegna kísilmálmverksmiðju PCC, frá febrúar í ár, segir að til að draga úr áhættu vegna jarðskjálfta verða mannvirki hönnuð sérstaklega með tilliti til þeirra. Eins að leiðslur fyrir jarðgas, sem fylgir sprengihætta, og kerfi sem innihalda eitraðar lofttegundir verða hönnuð sérstaklega með jarðskjálftaálag í huga samkvæmt ströngustu kröfum.

„Viðbragðsáætlanir verða unnar fyrir alla starfsemina með sérstaka áherslu á þætti sem valda áhættu fyrir fólk, umhverfi og starfsemi við og í kjölfarið á jarðskjálfta, t.d. vegna gasleka eða óæskilegrar losunar úrgangs eða eitraðra lofttegunda,“ segir þar einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×