Lífið

Jeff Dunham kemur aftur til Íslands

Samúel Karl Ólason skrifar
Grínistinn Jeff Dunham fyllti Laugardalshöllina tvisvar þegar hann kom síðast til Íslands.
Grínistinn Jeff Dunham fyllti Laugardalshöllina tvisvar þegar hann kom síðast til Íslands. Vísir/Getty
Grínistinn Jeff Dunham kemur aftur til Íslands. Hann ferðast nú um heiminn og tekur upp efni fyrir heimildarmynd sem fjallar um starf grínistans víða um heim. Samkvæmt tilkynningu frá Senu vill hann að Ísland verði hluti af því verkefni.

Þann 19. apríl mun Dunham vera með uppistand í Eldborgarsal Hörpu, með splunkunýtt efni. Aðrar borgir sem hann heimsækir á ferðalaginu eru Dublin, Abu Dabi og Jerúsalem.

„Jeff Dunham sigraði hugi og hjörtu áhorfenda hérlendis í september þegar hann seldi um sex þúsund miða og fyllti Höllina í tvígang, árangur sem enginn grínisti hefur náð hérlendis hvorki fyrr né síðar. Hann var svo hrærður yfir viðtökum áhorfenda og skemmti sér svo vel á sviðinu að sýningarnar lengdust um hálftíma hvor, áhorfendum til ómældrar gleði,“ segir í tilkynningunni.

Þá eyddi Dunham nokkrum dögum á Íslandi og skoðaði sig um. „Það er óhætt að segja að hann hafi kolfallið fyrir landi og þjóð, því hann bókstaflega heimtaði að fá að koma aftur og skemmta landsmönnum um páskana sem og að kynna Ísland fyrir aðdáendum sínum um allan heim í gegnum heimildarmyndina sem hann vinnur að.“

„Búið ykkur undir að sjá á ný Jeff, Peanut, Achmed, Walter og öll hin í návígi því þau snúa aftur til lands íss og elda með glænýja sýningu!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.