Innlent

Jóhanna manar stjórnarandstöðu til að lýsa yfir vantrausti á sig

Erla Hlynsdóttir skrifar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skorar á stjórnarandstöðuna að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þetta gerði Jóhann í pontu á Alþingi fyrir stundu þar sem hún svaraði gagnrýni þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem þykja aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna í þágu heimilanna vera slæmar og illa útfærðar.

„Komið þið fram með vantraust á þessa ríkisstjórn," sagði Jóhanna og lagði til að ef stjórnarandstaðan myndi leggja fram slíka tillögu þá væri hægt að sjá hvort meirihluti væri fyrir henni.

Jóhanna sagði þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefði lagt fram væru ekki beint burðugar. Hún lagði áherslu á að þingheimur allur ynni saman að uppbyggingu. „Það er það sem fólk er að kalla eftir, að við náum saman um þær brýnu aðgerðir sem við þurfum að fara í."

Hún var ósátt við að stjórnarandstaðan gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi og efaðist um að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu staðið sig nokkru betur. „Ef þessi ríkisstjórn er svona ómöguleg eins og stjórnarandstanað er að halda fram, af hverju ber hún ekki fram vantraust á þessa ríkisstjórn?," spurði Jóhanna. Þannig væri hægt að láta á það reyna hvort meirihluti væri á þingi fyrir hugmyndum ríkisstjórnarinnar.

Ef svo væri ekki þyrfti stjórnin að sinna uppbyggingunni án stjórnarandstöðunnar. „Við skulum þá sjá hvort stjórnarandstaðan er tilbúin til að fara í kosningar strax eða taka við," sagði hún.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×