Innlent

Jólaljóð eftir Sjón fylgir Kertasníki

Fjölmennt var á Austurvelli í gær og veðrið skartaði sínu fegursta þegar kveikt var á trénu í gær.
Fjölmennt var á Austurvelli í gær og veðrið skartaði sínu fegursta þegar kveikt var á trénu í gær. MYND/Hörður

Margt var um manninn á Austurvelli í gær þegar kveikt var á Óslóartrénu við Austurvöll. Tréð er nú í fyrsta skipti skreytt litlum jólaóróum, ásamt jólaljósunum, en óróarnir verða seldir til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra en alþjóðadagur fatlaðra var í gær.

Það eru listamennirnir Sjón og Sigga Heimis sem leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið með túlkun sinni á Kertasníki. Óróinn er úr stáli og segir Eva Þengilsdóttir, hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, að á næstu árum megi vænta svipaðra listaverka sem sýni bræður hans tólf.

Eva segir að hugmyndin að listaverkinu sé að tengja ritsnilld og hönnun við íslenskan menningararf en Sjón samdi ljóð sem fylgir hverjum Kertasníki.

Kertasníkir verður seldur í versluninni Casa í Síðumúla og rennur ágóði af sölu hans til Æfingastöðvarinnar sem sinnir iðjuþjálfun barna og unglinga en stöðin er fimmtíu ára um þessar mundir.

Rúm hálf öld er síðan Norðmenn færðu Íslendingum grenitré að gjöf í fyrsta skipti til að skreyta Reykjavík. Við athöfnina í gær flutti Dómkórinn nokkur lög áður en Guttorm Vik, sendiherra Noregs á Íslandi, afhenti tréð. Það var hinn ellefu ára norsk-íslenski Jóel Einar Halldórsson sem kveikti ljósin á trénu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×