Viðskipti innlent

Jón Ásgeir segist hafa boðið Arion banka að greiða allar skuldir

Jón Ásgeir Jóhannesson stofnaði Bónus ásamt föður sínum í Reykjavík árið 1989.
Jón Ásgeir Jóhannesson stofnaði Bónus ásamt föður sínum í Reykjavík árið 1989.

Jón Ásgeir Jóhannesson sem ásamt fjölskyldu sinni átti félagið 1998 ehf., móðurfélag Haga, segist hafa boðið Arion banka að greiða stóra eingreiðslu inn á skuldir móðurfélagsins og afganginn á sjö árum með 2 prósenta vöxtum. Bankinn hafi hafnað því. Hann segist óska nýjum eigendum Haga velfarnaðar og góðs gengis.

Arion banki gekk í gær frá sölu á 34 prósenta hlut í Högum til hóps fagfjárfesta, en í hópnum eru Friðrik Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson, Tryggingamiðstöðin, Sigurbjörn Þorkelsson og Gildi lífeyrissjóður.

Fram hefur komið að Arion banki þarf nú að afskrifa 35 milljarða króna vegna niðurfærslu á lánum til félagsins 1998 ehf. en félagið keypti Haga út úr Baugi Group sumarið 2008 á rúmlega 30 milljarða króna. Einkahlutafélögin Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu, ISP, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og Bague SA, sem er í eigu Hreins Loftssonar, eru í ábyrgðum fyrir lánum til félagsins 1998 ehf., en félögin eru flest eignalítil eða eignalaus og því eru ekki til fjármunir til að mæta skuldbindingum 1998 ehf.

Segir stjórnendur Arion hafa mælt með tilboði fjölskyldunnar

Jón Ásgeir Jóhannesson segir að fyrrverandi eigendur Haga, þeir sem standa að 1998 ehf., hafi boðist til að greiða skuldir móðurfélagsins og afganginn með 2 prósenta vöxtum á sjö árum. „Haustið 2009 buðumst við til að greiða allar skuldir Haga og móðurfélagsins til baka á 7 árum, en því var hafnað . Í byrjun árs 2010 lögðum við fram tilboð í 51 prósents hlut ásamt stjórnendum og erlendum fjárfestum upp á rúmlega 10 milljarða króna. Því var hafnað af stjórn Arion banka þrátt fyrir að stjórnendur bankans hefðu mælt með því að tilboðinu yrði tekið," segir Jón Ásgeir Jóhannesson í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis, en bankastjóri Arion banka þá var Finnur Sveinbjörnsson.



Jóhannes Jónsson

Tilgangurinn að koma stofnendum Bónuss frá Högum

Jón Ásgeir segir að svo virðist sem Arion banki hafi ekki lagt áherslu á að fá lán sín endurheimt. „Það verður að fara varlega í að ætla tap Arion banka vegna Haga. Arion banki á enn meirihluta í Högum og ekki útilokað að sá hlutur verði seldur á sömu kostakjörum og 34 prósenta hluturinn sem var seldur í gær. Svo virðist sem peningar hafi ekki haft forgang hjá Arion mönnum heldur virðist forgangsröðunin hafa verið að koma stofnendum Bónus út úr Högum. Ég vil hins vegar óska nýjum eigendum Haga til hamingju með kaupin góðu. Hagar er mjög gott fyrirtæki skipað frábæru starfsfólki og ég vona svo sannarlega að að þeir standi við þau gildi sem Bónus hefur staðið fyrir í þau 20 ár frá því við stofnuðum félagið; að bjóða alltaf lægsta verð á matvöru á hverjum tíma," segir Jón Ásgeir Jóhannesson.

„Arion banki fór þá leið sem hann taldi skila bankanum mestum endurheimtum,“ segir Iða Brá Benediktsdóttir, talsmaður Arion banka. Hún segir að bankinn muni ekki tjá sig um málið að öðru leyti.


Tengdar fréttir

Kaupa þriðjungshlut í Högum

Arion banki hefur selt dreifðum hópi lífeyrissjóða og öðrum fjárfestum 34% hlut í Högum ásamt kauprétti að 10% viðbótarhlut. Kaupverð er 4,1 milljarður. Skráning í kauphöll er fyrirhuguð síðar á árinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×