Innlent

Jón Gnarr vill fá að gefa saman hjón

Erla Hlynsdóttir skrifar
Borgarstjóri Reykjavíkur sótti í dag um undanþágu til innanríkisráðuneytisins til þess að fá að gefa saman hjón. Jón Gnarr segist reglulega fá fyrirspurnir um að gera slíkt, aðallega frá erlendum hommum.

Jón segir fyrirspurningar hafa komið hvaðanæðva úr heiminum en þeim hafi hingað til öllum verið svarað neitandi, enda hafi borgarstjóri enga slíka heimild.

Í dag ritaði Jón því bréf til innanríkisráðuneytisins þar sem hann óskar eftir undanþágu frá hjúskaparlögum þannig að það verði ekki aðeins forsvarsmenn trúfélaga, sýslumenn og skipstjórar á sjó sem megi gefa saman hjón.

„Ég óska eftir því að að borgarstjóra verði bætt þarna inn vegna þess að mér finnst þetta svona sýslumenn svolítið gamaldags," segir Jón.

Hann segir þessa heimild borgarstjóra vera til staða víða erlendis. Jón bendir á að þátttaka hans í gleðigöngu Hinsegin daga hafi vakið mikla athygli út fyrir landsteinana.

„Það er eitt sem er athyglisvert við þetta, það er að flestir af þeim sem hafa haft samband við mig eru samkynhneigðir. Ég lít á þetta sem frábært tækifæri fyrir Reykjavík til að stimpla sig ennþá betur inn sem leiðandi borg í réttindum samkynhneigðra," segir Jón. Mun fleiri hommar hafa sent honum fyrirspurn en lesbíur.

Nú hugsa eflaust margir hvort að þú ættir ekki frekar að vera einbeita þér að því að finna leikskólapláss fyrir börn fremur en að standa í þessu?

„Ég er að gera það líka. Þetta verður að vera fjölbreytt [...] það þýðir ekki að þó að hlutir séu skemmtilegir, óvenjulegir eða sniðugir að þeir séu verðlausir," segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×