Innlent

Jón var bara að grínast - ekki í framboði

Jón Ólafsson athafnamaður vísar því alfarið á bug að hann hyggi á framboð til forseta Íslands. Fyrr í dag var sagt frá því að Jón hafi lýst því yfir í nýársfagnaði í gær að hann ætlaði að bjóða sig fram. Jón segir hinsvegar nú í samtali við Vísi að um gamanmál hafi verið að ræða.

„Ég var fenginn til að vera með smá uppákomu," segir Jón og bætir við að það hafi greinilega tekist vel til með grínið, fyrst einhverjir hafi lagt trúnað á það. „Ég er ekki einu sinni kjörgengur þar sem ég er með lögheimili erlendis," bætir hann við og vísar því á bug að hann gangi með það í maganum að verða forseti.

Hann segir hinsvegar að þessi misskilningur sýni að hver sem er gæti orðið forseti á Íslandi. Nú ættu menn að leggjast vandlega yfir það að finna hæfa frambjóðendur. Að hanns mati ætti helst að varast að fá fólk úr pólitíkinni í verkefnið.

Aðspurður hvort hann hafi einhvern ákveðinn í huga til að taka embættið að sér segir Jón að mikið sé til að hæfu fólki sem til greina geti komið. „En ég er ekki þessi manneskja," segir Jón að lokum, léttur í bragði.


Tengdar fréttir

Jón Ólafs lýsir yfir framboði og Jón Gnarr íhugar það

Eftir yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar þess efnis að hann hyggi ekki á áframhaldandi búskap á Bessastöðum keppast menn nú við að finna mögulegan arftaka. Tveir Jónar hafa í dag bæst í hópinn, Jón Gnarr borgarstjóri sagðist í viðtali á Rás 2 í morgun vera að íhuga framboð. Jón Ólafsson, sem síðustu ár hefur einbeitt sér að því að selja vatn, er á Pressunni sagður hafa lýst yfir framboði á Nýársfagnaði í gær. Ekki hefur náðst í Jón til þess að fá þetta staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×