Innlent

Jóni Bjarnasyni hótað embættismissi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var hótað embættismissi vegna ágreinings milli hans og Össur Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, en Jón hefur ekki viljað svara spurningum Evrópusambandsins um landbúnaðarmál.

Össur hefur um hríð krafist þess að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svari spurningum Evrópusambandsins um greiðslustofnun landbúnaðar og landupplýsingakerfi, sem grundvallar styrkjakerfi Evrópusambandsins í landbúnaði. Jón vill hins vegar bíða eftir væntanlegri rýniskýrslu ESB um málaflokkinn og bíða með að svara spurningum þar til sú skýrsla hefur litið dagsins ljós. Þetta hefur leitt til vaxandi spennu í samskiptum ráðherranna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Til þess að ganga inn í Evrópusambandið þarf Ísland að uppfylla ákveðin skilyrði á sviði landbúnaðar, eins og annarra málaflokka. Meðal annars þarf að setja hér upp áðurnefnda greiðslustofnun og sérstakt landupplýsingakerfi.

Morgunblaðið greinir frá því að deilur ráðheranna tveggja, Össurar og Jóns, vegna trega hins síðarnefnda til að svara spurningum sambandsins, hafi gengið svo langt að Jóni hafi verið tjáð að hann gæti misst ráðuneyti sitt vegna málsins. Þetta er í samræmi við heimildir fréttastofunnar, en því hefur ekki verið neitað í að til tals hafi komið að Jón hætti sem ráðherra vegna ágreiningsins.

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, segir að hvorki hann né ráðherrann séu á förum. „Það er enginn hérna að pakka niður," segir hann.

Jón Bjarnason varð ekki við ósk fréttastofunnar um viðtal vegna málsins. Þá náðist ekki í Össur Skarphéðinsson í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×