Innlent

Jussanam fær lengri frest

Dómsmálaráðuneytið hefur frestað ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa Jussanam da Silva og dóttur hennar úr landi. Mæðgunum hafði verið gert að yfirgefa landið í lok þessa mánaðar.

Málið á sér nokkuð langan aðdraganda en Jussa nam da Silva flutti hingað til lands frá Brasilíu fyrir rúmum tveimur árum ásamt eiginmanni sínum sem er íslenskur ríkisborgari.

Þau skildu að borði og sæng í apríl á þessu ári en ekki hefur verið gengið frá lögskilnaði. Í kjölfarið sótti Jussanam um atvinnuleyfi sem var synjað. Sú ákvörðun hefur verið kærð til félagsmálaráðuneytisins.

Útlendingastofnun synjaði einnig umsókn hennar um dvalarleyfi og 23. september síðastliðinn fékk hún þrjátíu daga frest til að yfirgefa landið. Dóttur hennar, sem er 21 árs, var einnig gert að yfirgefa landið á þeirri forsendu á móðirinn væri ekki með dvalarleyfi.

Þetta var kært til dómsmálaráðuneytisins og í gær ákvað ráðuneytið að fresta ákvörðun útlendingastofnunar á meðan málið er í skoðun.

Ákvörðun útlendingastofnunar byggir á því að Jussanam sé ekki lengur í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Þessu hefur mótmælt á þeirri forsendu að ekki sé búið að ganga frá lögskilnaði og því hafi stofnunin ekki geta synjað henni um dvalarleyfi.

Allt að þrír mánuðir geta liðið áður en niðurstaða dómsmálaráðuneytisins liggur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×