Innlent

Kanínur skotnar á færi á Selfossi

"Það eru ráðnir menn sem munu fara um og skjóta kanínur.“
"Það eru ráðnir menn sem munu fara um og skjóta kanínur.“ Mynd/365
Umhverfisráðuneytið hefur gefið Sveitarfélaginu Árborg leyfi fyrir að drepa kanínur á Eyrarbakka og á Selfossi en kanínur hafa fjölgað sér gríðarlega mikið á þessum tveimur stöðum og valda miklu tjóni í görðum fólks og víðar. Kanínurnar verða skotnar á færi.

Kanínur eru að verða mikið vandamál á Selfossi og Eyrarbakka og fara þær í taugarnar á mörgum en aðrir elska þær og vilja alls ekki að farið verið í herferð gegn þeim.

Kanínur fjölga sér mjög hratt. Nú hefur fengist leyfi til að drepa hluta af kanínunum í sumar.

Ásta Stefánsdóttir er bæjarstjóri í Árborg.

„Við erum búin að fá heimild frá Umhverfisráðuneytinu til þess að fara í það að fækka kanínum. Þær hafa vaðið uppi hér á Selfossi og Eyrarbakkar og valdið tjóni í görðum hjá fólki. Það er mikill fjöldi af kanínum þannig að við fengum heimild til þess að fara í átak til að fækka þeim,“ segir Ásta.

Hvernig átak er það?

„Það eru ráðnir menn sem munu fara um og skjóta kanínur.“

Er þetta mikið magn sem á að skjóta?

„Já, við fórum í svona átak í fyrra og þá náðust eitthvað um hundrað dýr - sem okkur þótti svolítið lítið en við erum að vonast til að ná betri árangri núna. Enda er þetta orðnir hvimleiðir gestir sem eru farnir að angra fólk verulega.“

En hvernig angra kanínurnar íbúa á Eyrarbakka og Selfossi?

„Þær eru að fara í garða og skemma gróður og þess háttar. Það er líka þekkt að kanínur geta valdið spjöllum húsum, þær geta skemmt lagnir og grafið sig undir hús. Það þarf að stemma stigu við þessu.“

Og verða þær bara skotnar á færi?

„Já, það er nú bara þannig.“

Og allt í lagi með það?

„Já þetta er sú leið sem er áhrifaríkust, það er ekki gott að leggja út eitur eða þannig því það geta hvaða dýr sem er farið í það. Það hefur ekki gefist vel að nota gildur, þannig þetta er nú bara leiðin hvað svo sem mönnum kann að finnast um það,“ segir Ásta að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×