Skoðun

Karólína stigi til hliðar

Arnþór Sigurðsson skrifar

Það var fróðleg lesning í Fréttablaðinu í gær þar sem formenn félaga VG í Kópavogi og Reykjavík stökkva fram á ritvöllinn og vanda ekki forystu VG kveðjurnar. Sérstaklega er áhugavert að sjá undir hvaða titli Karólína skrifar, þ.e. sem formaður VG í Kópavogi. Karólína var kosin til þess á aðalfundi félagsins í janúar er leið, en hefur lítinn tíma gefið sér til að sinna því starfi. Því má segja að formaðurinn sé landlaus hvað varðar tengsl við félaga sína.

Það er enn undarlegra að sjá hana skrifa um lýðræði og opna umræðu á opinberum vettvangi.

Hennar störf í Kópavogi bera þess ekki vitni að hún sé mikið fyrir lýðræðið eða opna umræðu.

Karólína hefur hvorki boðað til fundar í stjórn VG í Kópavogi né mætt á boðaða fundi innan félagsins í hálft ár. Hvorki á stjórnarfundi, félagsfundi eða fundi bæjarmálaráðs VG í Kópavogi.

Sem betur fer hafa almennir félagar ekki látið fjarveru formannsins trufla starfið, það er kröftugra en nokkru sinni fyrr undir stjórn annarra félagsmanna.

Það er því varla eðlilegt að hún telji sig tala í umboði félagsmanna.

Í minni sveit var það sagt að það sé ljótt að villa á sér heimildir eða hefja sig upp í nafni annarra. Í raun virkaði þessi pistill hennar í Fréttablaðinu í gær á mig þannig að hér væri Garðar Hólm sjálfur mættur ljóslifandi. Hvað sem Karólínu finnst um þremenningana eða störf forystu VG yfir höfuð er hennar mál og er afar eðlilegt að hún hafi sínar skoðanir en það er verulega óeðlilegt að koma þeim á framfæri á röngum forsendum eins og hún hefur gert.

Eðlilegast væri að Karólína stigi til hliðar sem formaður félagsins í Kópavogi svo að grasrótarstarfið hjá okkur gæti lifað og dafnað með eðlilegum hætti.

Hennar störf hafa það sem af er árinu verið afskaplega lítil í okkar félagi og hefur það í raun staðið félaginu fyrir þrifum og er henni ekki til sóma. Það er því viðeigandi að vitna í hennar orð og beina þeim til hennar. Karólína á að mínu mati að hugsa sinn gang.








Skoðun

Sjá meira


×