Innlent

Katla að róast, Hekla líklegri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Líkur á Kötlugosi eru nú taldar minni en var fyrir tveimur árum og hefur dregið úr óróa í eldstöðinni. Annað gildir hins vegar um Heklu og segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor að hún sé núna líklegasta eldfjallið til að gjósa á næstu misserum.

Margir héldu að gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 myndi ræsa Kötlu í gang. Hlaupið sem kom niður Mýrdalssand sumarið 2011 og skolaði burt brúnni yfir Múlakvísl var bara til að styrkja trú manna um að stutt væri í Kötlugos en þá mynduðust djúpir sigkatlar yfir eldstöðinni. En hún hefur hins vegar ekkert bært á sér að ráði síðasta árið.

„Katla er nú í meginatriðum frekar róleg, miðað við það sem hún er búin að vera undanfarin ár,” segir Magnús Tumi í viðtali á Stöð 2.

Aukna rafleiðni í Múlakvísl, sem mældist í síðustu viku, telur hann merki um flæði jarðhitavatns. Há leiðni mælist nánast á hverju ári og það þýði leka úr jarðhitasvæðum í jöklinum.

„En auðvitað verðum við að fylgjast vel með og vita hvað er að gerast á hverjum tíma.”

Magnús Tumi telur raunar að dregið hafi úr líkum á Kötlugosi.

„Ég tel minni líkur á Kötlugosi á næstunni heldur en ég taldi fyrir 2-3 árum.”

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.Stöð2/Ragnar Dagur
Þegar prófessorinn er spurður hvaða eldstöð á Íslandi teljist líklegust til að gjósa næst er svarið: Hekla. 

„Ef Hekla ætlar að halda áfram þeim takti sem hún hefur haft síðan 1947, eða 1970, þá má búast við að komi gos þar á næstu misserum. En það er nú bara þannig að ef við förum aftur fyrir 1947 þá tók hún 50 til 100 ára hlé alltaf á milli gosa. Það má vel vera að hún sé stokkin í þann haminn aftur. En ég myndi nú samt segja að Hekla er svona sá staður sem líklegastur er.”


Tengdar fréttir

Vaxandi rafleiðni í Múlakvísl

Rafleiðni í Múlakvísl hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá því á gamlársdag, samkvæmt mæli Veðurstofunnar á Múlakvíslarbrú. Hún mælist nú 260 einingar en meðaltalið er 150 einingar, en aukin rafleiðni gæti bent til eldsumbrota í Kötlu.

Fyrirvarinn yrði einn til tveir tímar

"Það er enginn hlaupandi um gangana eða neitt. Menn vinna bara sína venjulegu vinnu. Þetta er bara vegna örlítil aukning í bakgrunnsskjálftavirkni. Það gefur til kynna að virknin sé pínulítið meiri en venjulega,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði hjá Jarðvísindastofnun Íslands. Almannavarnir lýstu í morgun yfir óvissustigi vegna hugsanlegs eldgoss í Heklu.

Óvissustig vegna hugsanlegs goss í Heklu

Búið er að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa í Heklu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra á Hvolsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×