Lífið

Katrín Tanja: „Fór í áheyrnarprufur í kjölfar sigursins“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ég fór í áheyrnarprufur úti fyrir hlutverk í kjölfar sigursins,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir í samtali við Ásgeir Erlendsson í Íslandi í dag. Katrín Tanja varð fyrir skemmstu hraustasta kona í heimi er hún stóð uppi sem sigurvegari á Heimsleikunum í CrossFit og hefur það opnað ýmsar dyr fyrir henni.

Hana dreymir til að mynda að verða leikkona og gæti sá draumur verið nær en nokkurn grunar ef hún hreppir hlutverkið. Eftir að hún kláraði menntaskóla hefur hún reynt fyrir sér bæði í verkfræði og lögfræði en henni þykir líklegt að verkfræðin verði fyrir valinu.

Katrín er 22 ára, fædd árið 1993 í London, og hefur búið hjá ömmu sinni og afa síðan hún hóf nám við Verzlunarskóla Íslands. Amma hennar, Hervör Jónasdóttir, hefur verið einn dyggasti stuðningmaður hennar í gegnum tíðina. Er Katrín varð Íslandsmeistari var til að mynda tekið viðtal við ömmu hennar sökum vaskrar framgöngu hennar á pöllunum.

„Sigurinn hennar kom mér ekki á óvart eftir allar æfingarnar, blóðið, svitann og tárin,“ segir Hervör. „Hún er yndisleg stelpa og við erum heppin að hafa hana.“

Fyrir sigurinn á leikunum fékk hún 37 milljónir króna og spurði Ásgeir hvað hún hyggðist gera við sigurlaunin. „Það er ekki ákveðið en til að byrja með fer þetta allt inn á banka. Það verður gott að geta gripið í þetta þegar mig langar í eigin íbúð. Mögulega fæ ég mér bíl en það er ekkert víst,“ segir Katrín Tanja.

Ásgeir fékk að elta þessa hraustustu konu heims í heilan dag og má sjá innslagið úr Ísland í dag hér að ofan.


Tengdar fréttir

Ég er stolt af vöðvunum

Katrín Tanja Davíðsdóttir er nýkrýndur heimsmeistari í crossfit. Við tekur annasamur tími, hún mun ferðast víða og verða þekktara nafn. Hún ætlar að nýta tækifærin sem bjóðast og hana dreymir um að verða íþróttafréttamaður eða leikkona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×