Viðskipti innlent

Kaupþingsrannsókn kostaði 270 milljónir

Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, var einn þeirra sem voru til rannsóknar hjá SFO. Hann sagði við Fréttablaðið í október 2012 að málið hefði verið "þvílík endemis þvæla og skáldskapur“. fréttablaðið/valli
Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, var einn þeirra sem voru til rannsóknar hjá SFO. Hann sagði við Fréttablaðið í október 2012 að málið hefði verið "þvílík endemis þvæla og skáldskapur“. fréttablaðið/valli
Breska efnahagsbrotadeildin, Serious Fraud Office (SFO), eyddi 1,3 milljónum punda, um 270 milljónum króna, í rannsókn sína á falli Kaupþings. Breska dagblaðið The Times fór fram á upplýsingar um kostnaðinn á grundvelli upplýsingalaga og birti svörin fyrir helgi. Rannsókninni var hætt í fyrra eftir að SFO viðurkenndi röð mistaka við framkvæmd hennar og bað meðal annars einn hinna grunuðu afsökunar á framferði sínu við rannsóknina, sem var ein sú umsvifamesta sem stofnunin hafði ráðist í.

Kostnaðurinn gæti hækkað umtalsvert þar sem bræðurnir Vincent og Robert Tchenguiz, sem voru á meðal hinna grunuðu, hafa farið fram á himinháar skaðabætur frá stofnuninni vegna þess skaða sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknarinnar, en hún snerist að mestu um lánveitingar Kaupþings til bræðranna. Vincent og Robert eru taldir fara fram á samtals um 400 milljónir punda, 83 milljarða króna, í bætur vegna þess skaða sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknarinnar. Málaferlin, sem talið er að muni standa í átta vikur, munu líkast til ekki hefjast fyrr en í byrjun árs 2014.

SFO hóf rannsókn á Robert Tchenguiz og nokkrum stjórnendum Kaupþings í desember 2009. Á meðal annarra sem voru til rannsóknar voru Ármann Þorvaldsson, Sigurður Einarsson og Guðni Níels Aðalsteinsson. Rannsókn á Vincent hófst síðan í september 2010 og í mars árið eftir var hann færður til yfirheyrslu á meðan leitað var á skrifstofu hans og heimili. Til rannsóknar voru lánveitingar Kaupþings til Tchenguiz-bræðranna.

Um miðjan október í fyrra tilkynnti SFO að hún væri hætt rannsókn á málefnum Kaupþings. Áður hafði rannsókn á þætti nokkurra þeirra sem höfðu stöðu grunaðra verið hætt. SFO viðurkenndi auk þess að mistök hefðu verið gerð í málinu.

Í þeim tölum sem The Times hefur undir höndum kemur fram að kostnaður SFO vegna rannsóknarinnar hafi verið 1,3 milljónir punda, eða um 270 milljónir króna. Þar af hafi 729 þúsund pund, 151 milljón krónur, farið í að greiða átta ráðgjöfum sem aðstoðuðu við rannsóknina. Um 417 þúsund pund, 86 milljónir króna, fóru í að greiða málflutningsmönnum og afgangurinn í launagreiðslur til þeirra starfsmanna SFO sem unnu að rannsókninni.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×