Innlent

Kemur ekki ótilneyddur

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, ætlar ekki að mæta sjálfviljugur til Íslands í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara. Þetta sagði Sigurður þegar Fréttablaðið náði tali af honum í London í gærkvöldi.

Alþjóðalögreglan Interpol gaf í gær út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Sigurði, sem hefur neitað að verða við tilmælum um að koma til yfirheyrslu.

„Ég er algerlega hlessa á þessum síðustu tíðindum," segir Sigurður. „Það kemur mér mjög á óvart að menn séu handteknir um leið og þeir koma til landsins," segir hann og vísar þar til Ingólfs Helgasonar og Steingríms P. Kárasonar, fyrrverandi yfirmanna hjá Kaupþingi, sem voru handteknir við komuna til landsins í fyrrinótt. Áður höfðu Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarinnar.

„Þessar handtökur og gæsluvarðhaldsúrskurðir eru að mínu viti fullkomlega ástæðulaus og ég mun að minnsta kosti ekki sjálfviljugur taka þátt í því leikriti, sem mér sýnist vera sett upp til þess að sefa reiði þjóðarinnar, eins og gefið hefur verið í skyn og ráðamenn hafa ekki treyst sér til að neita."

Spurður um handtökuskipunina sem Interpol hefur gefið út og hvort hann hyggist koma til landsins í ljósi hennar segir Sigurður: „Ég mun láta reyna á þau mannréttindi sem ég bý við hér í Bretlandi og kem þar af leiðandi ekki heim í þessar aðstæður ótilneyddur." Sigurður vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Verði Sigurður handtekinn ytra munu þarlendir dómstólar þurfa að úrskurða um það hvort hann verði framseldur til Íslands. -







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×