Innlent

Kennarar skrifa undir samning

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Við undirritun samningsins
Við undirritun samningsins Mynd/Kennarasamband Íslands
Félag grunnskólakennara hefur skrifað undir nýjan kjarasamning við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn er til þriggja ára og munu laun hækka um 3,5 prósent á þessu ári, þrjú prósent á því næsta og önnur þrjú prósent árið 2018. Þar að auki verður greidd eingreiðsla þann fyrsta febrúar árið 2019, 51.900 krónur.

„Við töldum að við kæmumst ekkert lengra með þetta núna. Við vorum komin á þann stað að það var annaðhvort að slíta þessum viðræðum eða leggja þetta í atkvæðagreiðslu hjá okkar félagsmönnum. Við mátum það þannig að það væri komið það mikið í þetta að það væri ástæða til að leggja það fram. Við myndum ekki leggja þetta fram nema af því að við teljum að þetta sé ásættanlegt,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.

Ólafur segir að auðvitað hefði hann viljað semja um betri kauphækkanir en það hafi ekki gengið eftir. „Við vorum líka að sækja á sveitarfélögin með ákveðnar breytingar á röðun á sérgreinakennurum hjá okkur gagnvart umsjónarkennurum. Það var ýmislegt inni í samningnum sem við vildum laga og bæta sem þeir höfnuðu,“ segir Ólafur.

Kjarasamningurinn verður nú kynntur félagsmönnum og er áformað að halda opinn fund á fimmtudag. Kosið verður rafrænt um nýja samninginn og er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla fari fram 2. til 9. júní næstkomandi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×